Sigurður sannfærði KSÍ-menn

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu og fræðslusjóri …
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu og fræðslusjóri KSÍ, átti drjúgan þátt í að Lars Lagerbäck varð fyrir valinu þegar eftirmaður Ólafs Jóhannsson var ráðinn síðla árs 2011. Eggert Jóhannesson

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu og fræðslustjóri Knattspyrnusambands Íslands, árum saman segir í pistli hafa sannfært stjórnendur KSÍ um að Lars Lagerbäck væri hárrétti maðurinn til þess að taka við þjálfun íslenska karlalandsliðsins fyrir fjórum árum síðan.

Stjórnendur KSÍ voru komnir í viðræður við Roy Keane, fyrrverandi leikmann Manchester United. Þess utan hafi forráðamenn KSÍ viljað halda tryggð við íslenska þjálfara.

Sigurður Ragnar segir í pistli á facebook-síðu sinni að hann hafi vegna kynna sinna af Lagerbäck talið hann vera hárrétta manninn í starfið. Þá hafi Lagerbäck farið nokkrum sinnum í lokakeppni stórmóta. „Það var kannski viðkvæmt þá að ég sem yfirmaður þjálfaramenntunar vildi ráða erlendan þjálfara í landsliðsþjálfarastarfið svo ég hef nú lítið sagt um þetta en ég tel það í lagi í ljósi árangurs landsliðsins í dag að láta þessa sögu flakka,“ segir Sigurður Ragnar m.a. í pistli sínum en hann er nú þjálfari hjá Lilleström í Noregi. 

Sigurður ræddi við Lagerbäck sem sagðist hafa áhuga á starfinu en hann hafi einnig fundið fyrir áhuga á frá fleiri landsliðum. Sigurður segir að þar af leiðandi hafi verið nauðsynlegt að vinna hratt. 

„Ég þurfti því að fylgja þessu máli hratt eftir þar sem KSÍ var komið í viðræður við Roy Keane og sannfæra stjórnendur KSÍ um að Lars væri betri kostur. Að lokum tóku Geir og Þórir auðvitað lokaákvörðunina og hún var að sjálfsögðu hárrétt og farsæl og þeim ber að hrósa fyrir það. Engan veginn ætla ég að eigna mér þessar ákvarðanir, þær voru auðvitað Geirs og Þóris og stjórnenda KSÍ,“ segir Sigurður Ragnar ennfremur í pistli sínum. 

Pistill Sigurðar Ragnars á Facebook.
Pistill Sigurðar Ragnars á Facebook. Skjáskot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert