Allt fyrir aurinn í Grafarvoginum

Kennie Chopart hefur verið öflugur hjá Fjölni að undanförnu.
Kennie Chopart hefur verið öflugur hjá Fjölni að undanförnu. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Fjölnir sigraði Víking, 4:3, í 20. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í dag í Grafarvoginum. Fjölnismenn eru þar með komnir með 33 stig en Víkingar eru áfram með sín 22.

Heimamenn byrjuðu leikinn betur og komust verðskuldað yfir á 24. mínútu. Þá skoraði Kennie Chopart eftir sendingu Arons Sigurðarsonar frá hægri kantinum. Chopart lék á varnarmann og setti boltann snyrtilega í markið. 

Í sömu andrá þurfti Steinar Örn Gunnarsson, markvörður Fjölnis, að yfirgefa völlinn vegna höfuðmeiðsla. Hann hafði fengið högg á höfuðið á 9. mínútu og reynt að halda áfram en varð að játa sig sigraðan um miðjan fyrri hálfleikinn og í hans stað kom Jökull Blængsson, 18 ára piltur í markið.

Heimamenn héldu áfram að sækja eftir markið og bættu öðru marki við á 28. mínútu. Bergsveinn Ólafsson, fyrirliði þeirra, skoraði þá fallegt mark úr aukaspyrnu; Beckham style. Heimamenn bættu einu marki við fyrir leikhlé en Aron Sigurðarson skoraði laglegt mark á 39. mínútu.

Víkingar klóruðu í bakkann undir lok fyrri hálfleiks. Ívar Örn Jónsson skoraði laglegt mark á 44. mínútu og aðeins mínútu síðar skoraði Hallgrímur Mar laglegt mark og staðan skyndilega orðin 3:2. Til að bæta gráu ofan á svart fyrir heimamenn var Gunnar Már Guðmundsson rekinn af velli í uppbótartíma þegar hann sparkaði í Igor Taskovic, eftir að Taskovic reif hann niður. Staðan því 3:2 eftir frábæran fyrri hálfleik.

Í síðari hálfleik róaðist leikurinn mikið, enda annað varla hægt. Heimamenn lágu til baka og beittu hættulegum skyndisóknum og úr einni slíkri skoruðu þeir fjórða mark sitt. Guðmundur Böðvar Guðjónsson fékk þá boltann fyrir utan vítateig og smurði honum í markið, stöngin inn, á 84. mínútu leiksins.

Víkingar voru fremur bitlausir í síðari hálfleik en náðu að minnka muninn í 4:3 á 87. mínútu. Davíð Örn Atlason náði þá skoti eftir hornspyrnu sem fór í gegnum þvögu af leikmönnum og endaði í netinu. Víkingar reyndu að jafna leikinn en tókst það ekki og Fjölnir landaði sætum sigri.

Fjölnir 4:3 Víkingur R. opna loka
90. mín. Arnþór Ingi Kristinsson (Víkingur R.) á skot sem er varið Laust skot úr teignum og Jökull grípur boltann örugglega.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert