Nýliðarnir mæta Íslandsmeisturunum

Hallur Hallsson, fyrirliði Þróttar Reykjavíkur.
Hallur Hallsson, fyrirliði Þróttar Reykjavíkur. Ljósmynd / Eva Björk Ægisdóttir

Pepsi-deild karla í knattspyrnu rúllar af stað klukkan 16.00 í dag þegar Þróttur Reykjavík sem eru nýliðar í deildinni fá ríkjandi Íslandsmeistara, FH, í heimsókn á Þróttaravöllinn í Laugardal. 

Flestar spár sparkspekinga gera ráð fyrir því að liðin muni berjast á sitt hvorum helmingi töflunnar. FH er iðulega spáð Íslandsmeistaratitli á meðan margir telja að Þróttur Reykjavík muni einungis staldra við í eitt keppnistímabil í deild þeirra bestu.

FH hef­ur unnið átta af sextán viður­eign­um fé­lag­anna í efstu deild, Þrótt­ur hefur fjórum sinnum borið sigur úr býtum í leikjum félaganna og fjórir leikir hafa endað með jafn­tefli. FH hef­ur unnið sex af síðustu sjö leikj­um fé­lag­anna í deild­inni.

Liðin mættust síðast í deildarkeppni árið 2009, en þá vann FH öruggan 4:0 sigur í fyrri leik liðanna á Kaplakrikavelli og liðin gerðu síðan markalaust jafntefli á Valbjarnarvelli í seinni leik liðanna. Matthías Vilhjálmsson skoraði tvö mörk fyrir FH í Kaplakrika og Atli Guðnason og Atli Viðar Björnsson sitt markið hvor.  

Davíð Þór Viðarsson, Atli Guðnason og Atli Viðar Björnsson eru einu leikmenn FH frá leikjunum við Þrótt Reykjavík árið 2009 sem eru enn í leikmannahópi FH. Hallur Hallsson og Oddur Björnsson eru einu leikmenn Þróttar Reykjavíkur frá leikjunum við FH árið 2009 sem eru í leikmannahópi Þróttar Reykjavíkur í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert