Fróðleiksmolar um leiki kvöldsins

Dennis Danry fagnar eftir að hafa skoraði fyrir Þrótt í …
Dennis Danry fagnar eftir að hafa skoraði fyrir Þrótt í 4:0 sigri á Breiðabliki árið 2009, síðast þegar liðin mættust. Sigmar Ingi Sigurðarson markvörður Blika og Kristinn Jónsson eru að vonum ekki jafn kátir. mbl.is/Árni Sæberg

Þrír síðari leikirnir í fjórðu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu fara fram í kvöld, þegar Stjarnan freistar þess að ná efsta sætinu á ný úr höndum Ólafsvíkinga, og bæði Víkingur R. og Þróttur leitast við að vinna sinn fyrsta leik. Hér kemur eitt og annað sem tengist leikjum kvöldsins.

Víkingur R. - Valur

Víkingsvöllur kl. 19.15.
Þetta er 86. viðureign Reykjavíkurfélaganna á Íslandsmóti og í efstu deild og saga þeirra er orðin 98 ára gömul því þau mættust í fyrsta skipti árið 1918. Þá unnu Víkingar stórsigur, 5:0. Þeir lögðu Valsstrákana sex sinnum í sjö fyrstu viðureignum félaganna á Íslandsmótinu og Valur náði ekki sínum fyrsta sigri fyrr en árið 1927. Þá urðu þeir hinsvegar tíu í röð og Víkingur vann Val ekki aftur á Íslandsmótinu fyrr en árið 1948.

Valur hefur nú unnið 47 viðureignir af 85 en Víkingur hefur unnið 19 og 19 sinnum hafa félögin skilið jöfn. Markatalan er 190:103, Valsmönnum í hag.

Víkingur hefur hinsvegar ekki tapað fyrir Val undanfarin tvö ár en þá hafa báðir leikir liðanna í Fossvogi endaði með jafntefli og Víkingur unnið báðar viðureignirnar á Hlíðarenda. Í fyrra urðu lokatölur í Víkinni 2:2 þar sem Pape Mamadou Faye og Agnar Darri Sverrisson skoruðu fyrir Víking en Kristinn Freyr Sigurðsson og Patrick Pedersen fyrir val. Kristinn er sá eini af þessum fjórum sem eftir í liðunum tveimur. Seinni leikinn á Hlíðarenda vann Víkingur 1:0 þar sem Ívar Örn Jónsson skoraði sigurmarkið.

Mesti markaleikur liðanna á milli á seinni árum var árið 1999. Þá skoraði Sigurbjörn Hreiðarsson, núverandi aðstoðarþjálfari Vals, þrennu á Laugardalsvellinum en var samt í tapliði því Víkingur vann leikinn 5:4. Bæði liðin féllu þá um haustið. Daníel Hafliðason og Jón Grétar Ólafsson gerðu tvö mörk hvor fyrir Víking í þeim leik.

Þróttur R. - Breiðablik

Þróttarvöllur kl. 19.15
Þó þessi félög eigi orðið ansi mörg ár í efstu deild hafa þau ekki verið svo oft þar bæði í einu. Þetta er áttunda árið sem þau mætast þar og leikirnir eru fjórtán til þessa.

Þróttur og Breiðablik mættust fyrst í efstu deild árið 1976 og þá hafði Breiðablik betur í báðum leikjunum. Hinrik Þórhallsson skoraði þrennu fyrir Blika og Þorgeir Þorgeirsson bæði mörk Þróttar í 3:2 sigri Breiðabliks á Kópavogsvellinum. Seinni leikinn í Laugardal unnu Blikar 2:1 og þá skoraði Hinrik aftur en Ævar Erlendsson gerði hitt mark liðsins. Leifur Harðarson, kunnari sem einn besti blakmaður landsins, skoraði þá mark Þróttar.

Tveimur árum síðar unnu Þróttarar báða leiki liðanna, 4:2 í Laugardal og 4:1 á Kópavogsvelli. Í fyrstu viðureigninni, á Laugardalsvellinum 23. júní 1978, skoruðu þeir Árni Valgeirsson, Páll Ólafsson (landsliðsmaður í handbolta), Þorvaldur Þorvaldsson og Þorgeir Þorgeirsson fyrir Þrótt en Ólafur Friðriksson og Hákon Gunnarsson fyrir Blika.

Páll Ólafsson var Blikum aftur erfiður árið 1983 þegar hann skoraði tvívegis í 3:2 sigri þeirra á Kópavogsvelli.

Af fjórtán viðureignum félaganna í deildinni hefur Breiðablik unnið fimm og Þróttur fjórar en fimm sinnum hafa þau skilið jöfn. Markatalan er 23:18, Þrótti í hag.

Síðasta leik liðanna, sumarið 2009, vann Þróttur 4:0 þar sem Haukur Páll Sigurðsson, núverandi fyrirliði Vals, gerði tvö markanna. Blikar unnu fyrri leikinn 2:1 þar sem Kristinn Steindórsson og Alfreð Finnbogason skoruðu fyrir þá grænklæddu en Hjörtur Júlíus Hjartarson gerði mark Þróttar.

KR - Stjarnan

Alvogen-völlurinn kl. 20.00
KR hafði til skamms tíma mikið tak á Stjörnunni en frá 1990 til 2012 náðu Garðbæingar ekki að vinna einn einasta leik af 20 gegn Vesturbæingum í efstu deild. 

Ísinn var brotinn sumarið 2013 þegar Stjarnan vann 3:1 á heimavelli og nú hefur Stjarnan unnið fjóra af sex síðustu leikjum sínum við KR. Meðal annars báða leikina árið 2014 og liðin unnu sinn leikinn hvort í fyrra. Þá skoraði Almarr Ormarsson sigurmark KR á í Garðabænum, 1:0, en Veigar Páll Gunnarsson, Guðjón Baldvinsson og Pablo Punyed skoruðu fyrir Stjörnuna í 3:0 sigri í Vesturbænum.

Þegar Stjarnan vann KR í fyrsta sinn árið 2013 var Kennie Chopart, núverandi KR-ingur, á meðal markaskorara Stjörnunnar og Baldur Sigurðsson, núverandi fyrirliði Stjörnunnar, skoraði mark KR.

Þegar liðin mættust fyrst, árið 1990, vann KR 3:1 sigur á Stjörnuvellinum. Ragnar Margeirsson gerði tvö marka KR og Björn Rafnsson eitt en Lárus Guðmundsson skoraði fyrir Stjörnuna. KR vann seinni leikinn 1:0 á KR-vellinum og þá skoraði Ragnar heitinn sigurmarkið.

Samtals hefur KR unnið 13 af 26 viðureignum félaganna í efstu deild en Stjarnan fjórar. Níu sinnum hafa þau skilið jöfn og markatalan er 49:29, KR í hag.

Víkingur og Valur hafa háð samtals 85 leiki á Íslandsmóti …
Víkingur og Valur hafa háð samtals 85 leiki á Íslandsmóti sín á milli. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
Magnús Már Lúðvíksson úr Þrótti og Finnur Orri Margeirsson úr …
Magnús Már Lúðvíksson úr Þrótti og Finnur Orri Margeirsson úr Breiðabliki í leik liðanna árið 2009. mbl.is/Árni Sæberg
Stjörnumenn gerðu góða ferð í Vesturbæinn í fyrra. Hér eigast …
Stjörnumenn gerðu góða ferð í Vesturbæinn í fyrra. Hér eigast Óskar Örn Hauksson og Heiðar Ægisson við. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert