Löng bið hjá Víkingum og ÍBV

Hafþór Ægir Vilhjálmsson og Hörður Sigurjón Bjarnason í leik ÍA …
Hafþór Ægir Vilhjálmsson og Hörður Sigurjón Bjarnason í leik ÍA og Víkings fyrir tíu árum. mbl.is/Brynjar Gauti

Þrír leikir í sjöttu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu fara fram í dag og kvöld og að vanda er hægt að rifja upp eitt og annað sögulegt í tengslum við þá.

Þróttur – ÍBV

Þróttarvöllur í dag kl. 17.

Þessi lið mættust síðast í efstu deild árið 2009 og unnu hvort annað. Þróttur vann í Laugardal, 2:1, þar sem Hjörtur Hjartarson og Dennis Danry skoruðu fyrir þá röndóttu en Þórarinn Ingi Valdimarsson fyrir Eyjamenn. Í Eyjum skoraði svo Augustine Nsumba frá Úganda sigurmark ÍBV, 1:0.

Liðin hafa mæst 14 sinnum í efstu deild frá 1978 og aðeins einu sinni hefur útiliðið sigrað. ÍBV vann Þrótt 2:0 í Laugardalnum árið 1979, þar sem Sveinn Sveinsson skoraði bæði mörkin. Það eru því 37 ár frá útisigri ÍBV á Þrótti, sem hefur aldrei unnið ÍBV á útivelli í deildinni!

Fyrsti leikur liðanna, árið 1978, endaði 2:2 þar sem Páll Ólafsson og Halldór Arason skoruðu fyrir Þrótt en Óskar Valtýsson og Örn Óskarsson fyrir ÍBV.

Víkingur R. – ÍA

Víkingsvöllur í kvöld kl. 19.15.

Þessi lið skildu tvisvar jöfn í fyrra, 1:1 í báðum leikjum, þar sem Garðar Gunnlaugsson gerði bæði mörk ÍA en Skagamenn gerðu sjálfsmark í heimaleiknum og Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði hjá þeim í Fossvoginum.

ÍA hefur unnið 29 af 54 viðureignum liðanna í efstu deild frá 1951 en Víkingur aðeins 11. Markatalan er 115:59, Skagamönnum í hag.

Víkingur hefur ekki náð að vinna ÍA á heimavelli í 36 ár, eða frá árinu 1980. Frá þeim tíma hefur ÍA unnið 9 sinnum og 6 sinnum gert jafntefli í 15 heimsóknum til Víkinga. Meðal annars skoraði Helgi Pétur Magnússon þrennu í 4:1 sigri ÍA í Fossvogi árið 2004.

Á sama tíma hefur Víkingur sex sinnum fagnað sigri á Akranesvelli, síðast 4:1 árið 2006.

KR – Valur

Alvogen-völlur í kvöld kl. 20.

Gömlu Reykjavíkurveldin eiga ríflega 100 ára sögu af viðureignum á Íslandsmóti en KR vann fyrsta leik liðanna, 5:1, árið 1915.

Frá þeim tíma hafa þau mæst 146 sinnum á Íslandsmótinu þar sem KR hefur unnið 55 leiki og Valur 50 en 41 hefur endað með jafntefli. Markatalan er 264:206, KR í hag.

Í fyrra gerðu liðin 2:2 jafntefli á KR-vellinum en Valur vann 3:0 á Hlíðarenda þar sem Patrick Pedersen gerði tvö markanna.

Valsmönnum hefur gengið mjög vel í útileikjum gegn KR í deildinni síðasta áratuginn og aðeins tapað einu sinni í síðustu tíu heimsóknum.

Kristinn Ingi Halldórsson hefur skorað þrjú mikilvæg mörk fyrir Val gegn KR síðustu tvö árin, eitt þeirra í bikarúrslitaleiknum í fyrra.

Gary Martin var Valsmönnum hins vegar afar erfiður og gerði 7 mörk í fimm leikjum gegn þeim árin 2012 til 2014.

Hallur Hallsson og Andri Ólafsson mættust með Þrótti og ÍBV …
Hallur Hallsson og Andri Ólafsson mættust með Þrótti og ÍBV árið 2009 og þeir eru enn að með sínum liðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Haukur Páll Sigurðsson og Pálmi Rafn Pálmason í bikarúrslitaleik Vals …
Haukur Páll Sigurðsson og Pálmi Rafn Pálmason í bikarúrslitaleik Vals og KR í fyrra. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert