Blikar unnu bikarslaginn

Breiðablik vann Stjörnuna 3:2 þegar liðin mættust í undanúrslitum Bikarkeppni kvenna á Samsung-vellinum í Garðabæ í kvöld. 

Stjarnan sem er ríkjandi bikarmeistari er fallið úr leik en Breiðablik mætir annað hvort Þór/KA eða ÍBV í úrslitaleiknum sem fer fram á Laugardalsvelli þann 12. ágúst. 

Stjarnan byrjaði betur fyrstu mínúturnar og voru hættulegar fram á við. Spilamennskan datt síðan niður og Breiðablik komst betur inn í leikinn þegar leið á fyrri hálfleikinn. Fyrsta mark Blika kom á 31. mínútu þegar Andrea Rán Hauksdóttir fékk boltann við vítateigsbogann, skaut og boltinn lak inn eftir að markmaðurinn kom puttunum í hann. 

Blikar bættu við öðru marki rétt fyrr hálfleik þegar Hallbera Guðný Gísladóttir tók aukaspyrnu djúpt frá hægri kanti. Hvorugt lið náði að pota í boltann sem endaði í markinu. Staðan 2:0  í hálfleik. 

Fanndís Friðriksdóttir skoraði síðan þriðja mark Breiðabliks á 66. mínútu þegar hún fékk boltann nálægt teignum vinstra megin, tók nokkur skref til að skera inn á miðju og skaut laglega neðarlega í hornið. 

Eftir nokkuð bitlausa frammistöðu framan af leiknum tók Stjarnan við sér undir lokin og herjaði grimmt á vörn Breiðabliks. Anna Björk minnkaði muninn á 74. mínútu með skall úr hornspyrnu og þegar fjórar mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma bætti Ana Cate við öðru marki Stjörnunnar þegar hún náði að pota boltanum inn við stöngina eftir fyrirgjöf og flikk. 

Stjarnan sótti látlaust eftir það en náði ekki að skora jöfnunarmarkið. 

Stjarnan 2:3 Breiðablik opna loka
90. mín. Stjarnan fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert