Heimir býst við að bæta við sig

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er afar jákvætt að ná að hrista af sér vonbrigðin frá því í Evrópuleiknum á miðvikudaginn. Við héldum boltanum vel, færðum hann hratt á milli kanta og sköpuðum fullt af færum. Þessi sigur var afar sanngjarn að mínu mati,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, í samtali við mbl.is eftir 2:0 sigur liðsins gegn Þrótti í Pepsi-deild karla í Kaplakrika í kvöld. 

„Það var þungt í mönnum í kjölfar leiksins gegn Dundalk, en það þýðir ekkert að pæla í því lengur og við náðum góðum æfingum í vikunni. Það er gott að ná að fylgja því eftir með góðri spilamennsku og öruggum sigri,“ sagði Heimir um spilamennsku FH í kvöld. 

„Núna er næsta verkefni að freista þess að tryggja okkur sæti í bikarúrslitaleiknum með því að leggja sterkt lið Eyjamanna að velli í Eyjum á fimmtudaginn kemur. Við munum skoða málin á leikmannamarkaðnum þangað til og sjá hvort við munum bæta við okkur leikmönnum. Ég býst við því að hrúga inn leikmönnum áður en glugginn lokar,“ sagði Heimir í gamansömum tón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert