Gat fagnað markinu betur í klefanum

Albert Brynjar Ingason skoraði bæði mörk Fylkis í Eyjum í …
Albert Brynjar Ingason skoraði bæði mörk Fylkis í Eyjum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er fáránlega mikilvægur sigur og við þurfum að hafa vel fyrir því í kvöld,“ sagði sóknarmaðurinn Albert Brynjar Ingason við mbl.is eftir 2:1-sigur Fylkis gegn ÍBV í Vestmannaeyjum í Pepsi-deild karla í knattspyrnu.

Með sigrinum nálgast Árbæingar liðin fyrir ofan. Þeir eru í 11. sæti með 13 stig en Eyjamenn eru í 10. sæti með 17 stig. Albert skoraði bæði mörk Fylkis í leiknum en honum þótti leikurinn kaflaskiptur:

„Mér fannst við stjórna leiknum alveg fram að fyrsta markinu. Síðan dettum við aðeins til baka en ætli það sé ekki út af stressi enda urðum við eiginlega að vinna þennan leik. Við náðum að lifa af restina af fyrri hálfleik og ákváðum að byrja seini hálfleikinn eins og þann fyrri. Færðum okkur ofar á völlinn og mér fannst við ná aftur takti í okkar leik strax í upphafi seinni hálfleiks. Mér fannst jöfnunarmarkið þeirra ekki liggja í loftinu en er mjög ánægður með hvernig við brugðumst við því og sýndum karakter,“ sagði Albert en hann skoraði sigurmark Fylkis rúmum tíu mínútum fyrir leikslok.

Sóknarmaðurinn fékk tvö færi, skoraði tvö mörk og var ánægður að hafa loksins náð að skora í leik þar sem Fylkir hefur betur. „Það er mjög ljúft að ná loksins að skora í sigurleik. Þá getur maður fagnað markinu meira inni í klefa. Maður er ekkert að fagna inni í klefa eftir jafntefli eða tap. Mikilvægast fyrir okkur alla er að ná sigri. Nú eru fleiri lið komin í þennan pakka og við erum heldur betur farnir að banka á dyrnar hjá liðunum fyrir ofan okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert