Þetta var aldrei rautt spjald

„Mér fannst við spila virkilega vel fyrsta hálftíma leiksins og komumst sanngjarnt yfir. Markið sem við fengum síðan á okkur sló okkur aðeins út af laginu, en við komumst yfir aftur skömmu síðar. Síðan verðum við leikmanni færri og þetta var erfitt eftir það,“ sagði Ejub Purisevic, þjálfari Víkings Ólafsvík, í samtali við mbl.is eftir 2:2 jafntefli liðsins gegn Fjölni í 16. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í Ólafsvík í kvöld. 

Ejub var afar ósáttur við að Emir Dokara hafi verið vísað af velli með rauðu spjaldi á 44. mínútu leiksins, en Þorvaldur Árnason, dómari leiksins, mat það sem svo að Dokara hefði farið of háskalega með sólann í höfuð Martins Lund Pedersen, leikmanns Fjölnis. 

„Það var aldrei spurning að þetta var brot. Mér finnst hins vegar þetta vera óhapp en ekki viljaverk hjá Dokara. Mér fannst leikmaður Fjölnis líka gera mun meira úr atvikinu en þurfti. Mér fannst gult spjald næg refsing fyrir þetta brot og þetta var mjög strangur dómur. Mér fannst öll vafaatriði í leiknum falla okkur í óhag sem var ekki nógu gott,“ sagði Ejub um rauða spjaldið og dómgæsluna í heild sinni í leiknum. 

„Við spiluðum í heild mjög vel í þessum leik og vorum skynsamir eftir að við urðum einum leikmanni færi. Við áttum klárlega skilið stigið sem við fengum og hefðum hæglega getað fengið þrjú stig. Við lékum vel á móti sterku liði Fjölnis og tökum fullt af jákvæðum hlutum í næstu leiki liðsins. Framundan er bara barátta um að hala inn stigum og tryggja sæti okkar í þessari deild. Með svona frammistöðu hef ég engar áhyggjur af því að stigin komi ekki,“ sagði Ejub um spilamennsku liðsins og framhaldið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert