Dýrkeypt einbeitingarleysi

Eyjamaðurinn Aron Bjarnason með boltann í Víkinni í kvöld. Ívar …
Eyjamaðurinn Aron Bjarnason með boltann í Víkinni í kvöld. Ívar Örn Jónsson og Viktor Bjarki Arnarson hafa auga á honum. mbl.is/Þórður

Hafsteinn Briem, fyrirliði ÍBV, var skiljanlega niðurlútur eftir 2:1-tap ÍBV gegn Víkingi R. í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í Fossvoginum í kvöld. ÍBV er eftir leikinn í 10. sæti deildarinnar með 17 stig.

„Mér fannst fyrri hálfleikurinn vera flottur hjá okkur. Við vorum þéttir og skipulagðir. Við fengum nokkur færi og þeir fengu ekki neitt nema markið sem er einbeitingarleysi hjá okkur,“ sagði Hafsteinn við mbl.is en staðan var 1:1 að loknum fyrri hálfleik.

Eyjamenn voru meira með boltann í seinni hálfleik, án þess þó að skapa sér mikið af færum. „Við stjórnuðum þessu svolítið og þeir fóru meðvitað til baka. Við fengum tækifæri til að loka þessum leik en svo er þetta bara einbeitingarleysi í lokin þar sem við fáum á okkur mark. Við verðum að taka því og horfa bara á næsta leik,“ bætti Hafsteinn við.

Bjarni Jóhannsson hætti sem þjálfari ÍBV á laugardag. Hafsteinn segir að það hafi auðvitað haft áhrif fyrir leikinn í kvöld. „Auðvitað. Það breytti svolítið leikplaninu hjá okkur. Jeffs kom með ferskar áherslur í þetta. Þetta er samt enn þá sama liðið og mér fannst við sýna mikil batamerki frá síðustu þremur leikjum. Þetta var í raun mjög flott frammistaða en úrslitin eru eins og þau eru.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert