Það er geggjað að vera í svona liði

Albert Hafsteinsson.
Albert Hafsteinsson. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Albert Hafsteinsson átti góðan leik fyrir ÍA í 3:0 sigri Skagamanna á Fylki í 16. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Albert skoraði fyrsta mark leiksins og kom sínum mönnum á bragðið.

„Þessi uppstiling hentar okkur vel, að spila svona með einn djúpan. Þeir voru í raun og veru ekkert að opna okkur. Vörnin hélt frábærri línu, bæði í fyrri og seinni hálfleik og þeir áttu í raun og veru engin svör,“ sagði Albert í samtali við mbl.is eftir leik.

Mark Alberts kom eftir um 10 mínútna leik.

„Boltinn kemur frá hægri og ég kem mér inn í teiginn og næ að snúa af mér varnarmanninn. Svo bara „táa“ ég hann eiginlega bara á mitt markið en ég er sáttur að hann fór inn loksins.“

Skagamenn eru nú skyndilega aðeins tveimur stigum frá öðru sæti deildarinnar og þar með Evrópusæti. Skyldu vera komin ný markmið í klefa ÍA?

„Fyrst og fremst lögðum við upp með að halda þessu liði uppi og þegar það er búið að takast, þá ætlum við að reyna að bæta árangurinn síðan í fyrra (7. sæti, innsk. blm.). Þegar við höfum náð því markmiði, þá getum við farið að líta eitthvað ofar.“

Albert var fljótur að tína til það sem honum fannst ganga best í leiknum hjá ÍA.

„Hversu vel okkur gekk að finna holurnar á milli varnar og miðju hjá Fylki. Menn voru bara að sýna frábæran karakter og það er geggjað að vera í svona liði. Við erum með stráka í öðrum flokki sem eru hungraðir og þegar þeir koma inn í hópinn, þá vilja þeir sanna sig. Það kemur alltaf maður í manns stað í svona liði,“ sagði Albert að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert