Þetta er orðið þreytt

Hermann Hreiðarsson.
Hermann Hreiðarsson. mbl.is/Eggert

Það var þungt hljóðið í Hermanni Hreiðarssyni, þjálfara Fylkis, eftir 1:1-jafntefli Fylkis og Fjölnis í Grafarvoginum í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Ingimundur Níels Óskarsson jafnaði fyrir Fjölni gegn sínum gömlu félögum í blálokin en Fylkismönnum fannst að markið hefði ekki átt að standa.

„Leiktíminn var liðinn, það er ósköp einfalt. Svo var hann rangstæður og það er bara giskað á það hver flikkar boltanum áfram,“ sagði Hermann eftir leikinn, en Ingimundur skoraði með skalla af stuttu færi eftir að Þórir Guðjónsson flikkaði boltanum áfram í kjölfar aukaspyrnu Ólafs Páls Snorrasonar.

„Þetta er orðið þreytt og það er hrikalega þreytt þegar þetta er svona oft. Við værum í þægilegri stöðu ef það hefði bara ein ákvörðun gengið með okkur í sumar. En þetta er alltaf einhvern veginn á móti okkur og það virðist vera þægilegt að dæma á móti Fylki,“ bætti Hermann við.

„Markvörðurinn þeirra hélt þeim inni í þessu, það er ósköp einfalt. Við fengum langbestu færin í leiknum. Við börðumst vel og vorum frábærir.“

Fylkismenn eru fjórum stigum á eftir ÍBV þegar fimm umferðir eru eftir af Íslandsmótinu. „Við erum inni í þessari baráttu, það er alveg á hreinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert