„Róló var frábær í dag“

Milos Milojevic
Milos Milojevic Eggert Jóhannesson

Milos Milojevic, þjálfari Víkinga, var brattur eftir 1:0 sigur liðsins á FH í 21. umferð efstu deildar karla í knattspyrnu í dag. Hann segir liðið hafa spilað afar vel í síðustu leikjum.

Alex Freyr Hilmarsson skoraði sigurmarkið á 14. mínútu er hann slapp einn í gegnum vörn FH-inga, fór framhjá Gunnari Nielsen í markinu og lagði knöttinn í netið.

FH, sem varð Íslandsmeistari á dögunum, fékk urmul af færum en Róbert Örn Óskarsson sá við sínum gömlu félögum.

Víkingur er í áttunda sæti með 29 stig eftir leiki dagsins.

„Við gerðum jafntefli í síðustu tveimur leikjum á undan þessum og hefðum vel getað unnið þá. Þetta var svipaður leikur og gegn Fjölni og ÍA. Þetta snýst um færanýtingu, sem var ekki góð hjá okkur í dag og það er markverði þeirra að þakka. Róló var frábær í dag og gegn KR,“ sagði Milos við fjölmiðla í dag.

„Ég er ánægður. Við höfum spilað ágætlega í síðustu þremur leikjum en það er alltaf hægt að gera betur. Ég er maður sem sættir sig ekki við neitt annað en að spila fullkominn leik. Ég er ekki sáttur við uppskeru sumarsins, við vorum með okkar markmið, bæði leikmenn og ég, þar sem við áttum að safna ákveðið mörgum stigum og við náðum ekki að safna þeim.“

„Það eru margir leikir sem við áttum að vinna og alls ekki að tapa. Ég er ánægður með fullt af þessu móti og ég held að ef við spiluðum bara á Víkingsvelli værum við Íslandsmeistarar, var það ekki þannig með Fylki í fyrra þegar þeir spiluðu sjö leiki í röð heima,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert