Skil ekki að þetta séu röng skilaboð

Heimir Hallgrímsson á æfingu landsliðsins í Egilshöll í vikunni.
Heimir Hallgrímsson á æfingu landsliðsins í Egilshöll í vikunni. mbl.is/Ófeigur

Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari karla í knattspyrnu gefur lítið fyrir gagnrýni íþróttafréttamannsins Harðar Magnússonar sem hefur sagt valið á Birni Bergmann Sigurðarsyni í landsliðið „út í bláinn“.

Hörður setti gagnrýni sína fram á Facebook þar sem hann sagði verið að senda röng skilaboð með valinu á Birni, sem fyrir nokkrum árum neitaði að spila fyrir landsliðið. Kveðst hann ekki skilja hvernig hægt sé að réttlæta valið. Heimir var spurður út í Björn og gagnrýni Harðar á fréttamannafundi í dag:

„Björn er búinn að standa sig vel á æfingum og hefur fallið fínt inn í hópinn. Ef þetta væri félagslið myndi ég svara á annan hátt. Menn eiga ekki fast sæti í landsliði. Það er nýtt landslið valið í hvert skipti. Sem betur fer höfum við verið með leikmenn sem hafa verið að standa sig vel, og verið stöðugir í sínum leik, sem hefur gert að verkum að þetta landslið er að standa sig vel. Í hverju verkefni horfum við á hver er að standa sig best á þeim tíma,“ sagði Heimir.

„Núna er Kolbeinn ekki í hópnum og Jón Daði tæpur. Við þurftum framherja og hann hefur verið að standa sig hvað best í þessari stöðu. Það er ekki flóknara en svo. Ef þetta eru röng skilaboð þá skil ég það í rauninni ekki,“ sagði Heimir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert