Margt jákvætt þrátt fyrir tap

Dagný Brynjarsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, skýtur að marki …
Dagný Brynjarsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, skýtur að marki Dana í dag. Ljósmynd/facebook síða KSÍ

„Við vorum heilt yfir sterkari aðilinn í þessum leik, vorum meira með boltann og fengum tvö upplögð marktækifæri í fyrri hálfleik. Þar fyrir utan fengum við nokkur fín færi, en við náðum ekki að skora og því fór sem fór,“ sagði Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu eftir 1:0 tap liðsins gegn Danmörku í vináttulandsleik í dag. 

„Markið þeirra kom gegn gangi leiksins að mínu mati. Þær skoruðu eftir laglegt samspil, en mistök í grunnfærslum hjá okkur áttu þátt í því að þær fengu færið sem þær skoruðu úr. Við lærum af því og það er jákvætt að þessi mistök komu í vináttulandsleik en ekki í mótsleik,“ sagði Freyr um sigurmark Dana í leiknum.

„Leikurinn bar þess keim að aðstæður voru mjög erfiðar og bæði lið höfðu eytt mikilli orku í fyrsta leik sinn í mótinu. Það er mjög heitt hérna og gríðarlega mikill raki í loftinu. Hitinn, loftslagið og þreyta eftir síðasta leik á móti Kína gerði það að verkum að tempóið var frekar lágt. Leikmenn beggja liða geta leikið mun betur en þeir gerðu í þessum leik,“ sagði Freyr um spilamennsku íslenska liðsins.

„Danska liðið hefur alla jafna verið meira með boltann og sótt mikið á okkur í fyrri leikjum liðanna. Það er jákvæð þróun að við stýrðum leiknum, héldum boltanum vel innan liðsins gegn danska liðinu og settum þær undir góða pressu. Það vantaði bara að reka smiðshöggið á góðar sóknir okkar. Það er hins vegar margt jákvætt sem við getum tekið út úr þessum leik,“ sagði Freyr enn fremur um frammistöðu íslenska liðsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert