Árni Snær með slitið krossband

Árni Snær Ólafsson í leik gegn Breiðabliki.
Árni Snær Ólafsson í leik gegn Breiðabliki. mbl.is/Ófeigur

Árni Snær Ólafsson, markvörður ÍA í knattspyrnu, varð fyrir því óláni að slíta krossband í hné og svo getur farið að hann leiki ekkert með Skagamönnum á næstu leiktíð.

Netmiðillinn 433.is greinir frá þessu en atvikið átti sér stað í æfingaleik á dögunum.

„Þetta gerðist í æfingaleik fyrir tveimur vikum, þetta var fyrsti æfingaleikur tímabilsins. Ég sneri mig eitthvað á hnénu og sleit krossbandið. Það gaf sig bara eitthvað í hnénu, það brakaði þegar ég var að spyrna mér í grasið og maður vissi strax að það væri eitthvað farið þarna,“ sagði Árni í viðtali við 433.is.

„Ég hef ekki hugmynd um hvort þetta bindi alveg enda á næsta tímabil. Læknirinn sagði mér að þetta væri slitið, en ef maður leggur saman tvo og tvo sér maður að það er líklega að stærstum hluta úr sögunni og líklega allt,“ segir Árni Snær.

Árni varði mark Skagamanna í öllum 22 leikjum liðsins í úrvalsdeildinni á þessu ári og hefur spilað 57 leiki fyrir félagið í deildinni. Hann er 25 ára gamall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert