Garðar og Ólafur áfram

Garðar B. Gunnlaugsson fagnar marki fyrir ÍA.
Garðar B. Gunnlaugsson fagnar marki fyrir ÍA. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Markakóngur Pepsi-deildar karla í knattspyrnu 2016, Garðar Bergmann Gunnlaugsson, hefur framlengt samning sinn við ÍA um tvö ár og leikur því með Skagamönnum út keppnistímabilið 2018.

Garðar, sem er 33 ára gamall, skoraði 14 mörk fyrir Skagamenn í deildinni í sumar. Hann er orðinn áttundi markahæsti leikmaðurinn í sögu ÍA í efstu deild með 41 mark í 111 leikjum, en samtals hefur Garðar spilað 254 leiki fyrir ÍA og skorað í þeim 121 mark.

Garðar lék með ÍA frá 2001 til 2004, síðan með Val í hálft annað ár og síðan í Skotlandi, Svíþjóð, Búlgaríu, Austurríki og Þýskalandi áður en hann kom aftur heim á Akranes fyrir tímabilið 2012. Hann spilaði sinn fyrsta A-landsleik í byrjun þessa árs, gegn Finnum í Abu Dhabi.

Ólafur Valur Valdimarsson hefur einnig framlengt samning sinn við ÍA til tveggja ára. Hann er 26 ára kantmaður og hefur verið óheppinn með meiðsli undanfarin ár en Ólafur hefur spilað 45 leiki með Skagamönnum í efstu deild og skorað í þeim tvö mörk. Alls á hann 180 leiki að baki með ÍA og hefur gert í þeim 16 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert