Fyrstu mörk Halldórs og Veigars fyrir FH

Veigar Páll Gunnarsson, Halldór Orri Björnsson hafa fagnað saman mörkum …
Veigar Páll Gunnarsson, Halldór Orri Björnsson hafa fagnað saman mörkum fyrir Stjörnuna en nú fyrir FH. mbl.is/Golli

Halldór Orri Björnsson og Veigar Páll Gunnarsson skoruðu sín fyrstu mörk FH-inga í dag þegar þeir unnu Keflvíkinga, 3:0, í fyrstu umferð Fótbolta.net mótsins í knattspyrnu í Reykjaneshöllinni.

Veigar kom til FH fljótlega eftir að síðasta tímabili lauk og Halldór Orri skömmu fyrir jól en hvorugur náði samkomulagi við Stjörnuna um nýjan samning. Steven Lennon gerði fyrsta mark Íslandsmeistaranna skömmu eftir hlé og síðan bættu Halldór og Veigar við mörkum. Keflvíkingar voru manni færri í sextíu mínútur eftir að Einar Orri Einarsson fékk rauða spjaldið.

Elvar Ingi Vignisson tryggði ÍBV sigur á FH í Fífunni, 3:2, með marki í uppbótartíma. Kaj Leo í Bartalsstovu, færeyski landsliðsmaðurinn sem ÍBV fékk frá FH, og Bjarni Gunnarsson skoruðu snemma fyrir ÍBV en Alfons Sampsted og Höskuldur Gunnlaugsson svöruðu fyrir Blika í seinni hálfleik.

Þá gerðu Grindavík og Víkingur frá Ólafsvík jafntefli, 2:2, í Reykjaneshöllinni. Alfreð Már Hjaltalín og Gunnlaugur Hlynur Birgisson komu Ólsurum í 2:0 en Gunnar Þorsteinsson og Alexander Veigar Þórarinsson svöruðu fyrir Grindvíkinga fyrir hlé og þar við sat.

Ívar jafnaði í uppbótartíma

Í Reykjavíkurmóti karla gerðu KR og Víkingur R. jafntefli, 1:1, í Egilshöllinni þar sem Ívar Örn Jónsson jafnaði fyrir Víking í uppbótartíma. Aron Bjarki Jósepsson gerði mark KR á 14. mínútu.

Þar varð líka jafntefli hjá ÍR og Fylki, 2:2. Stefán Þór Pálsson, sem er kominn til ÍR frá Víkingi R., gerði bæði mörk Breiðhyltinga eftir að Ásgeir Eyþórsson og Ari Leifsson höfðu komið Fylki í 2:0 á fyrstu 18 mínútunum.

Magni skellti KA-mönnum

Í Boganum á Akureyri vann 2. deildarlið Magna óvæntan sigur á úrvalsdeildarlið KA, 2:1, í Kjarnafæðismótinu. Þórsarinn gamalreyndi Jóhann Þórhallsson skoraði bæði mörk Magna og kom liðinu tveimur mörkum yfir en Hallgrímur Mar Steingrímsson svaraði fyrir KA undir lokin. Mótlætið fór greinilega í skap KA-manna sem fengu sjö gul spjöld í leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert