Það er allt í toppstandi

Jón Guðni í baráttu með íslenska liðinu.
Jón Guðni í baráttu með íslenska liðinu. AFP

Jón Guðni Fjóluson er í landsliðshópnum í knattspyrnu sem er þessa stundina í Kína að spila á fjögurra liða móti ásamt heimamönnum, Síle og Króatíu. 

Ísland vann Kínverja í fyrsta leik og tryggði sér með því sæti í úrslitaleik gegn Síle, sem vann Króatíu í fyrsta leik sínum. Jón Guðni var í hjarta varnarinnar í leiknum gegn Kína og var hann sáttur við leikinn. 

„Ég er yfir höfuð sáttur. Við byrjuðum ágætlega en svo misstum við svolítið stjórn á leiknum þegar þetta fór svolítið eins og þeir vildu. Í seinni hálfleik bökkuðum við aðeins og þá vorum við með meiri stjórn á þessu.“

Hann er sáttur við lífið og tilveruna í Kína og hlakkar hann til að takast á við Síle á morgun en leikurinn hefst kl 7:35 að íslenskum tíma.

„Það er ekki yfir neinu að kvarta hérna, það er allt í toppstandi. Þetta er mjög flottur leikur og það er gaman að fá að spila svona leik á móti liði sem er svona ofarlega, þeir eru númer fjögur á heimslistanum. Þetta verður hörkuleikur,“ sagði Jón Guðni en viðtalið má sjá hér að neðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert