Reyna að fá fleiri konur til að dæma

Fyrir tveimur árum urðu þau tímamót að fjórar konur sáu …
Fyrir tveimur árum urðu þau tímamót að fjórar konur sáu um dómgæslu í vináttuleik Íslands og Póllands í U23 ára liðum kvenna. Það voru Rúna Kristín Stefánsdóttir, Birna H. Bergstað, Bríet Bragadóttir og Jovana Cosic. Ljósmynd/KSÍ

Knattspyrnusamband Íslands ætlar að freista þess að fá fleiri konur til að sinna dómgæslu og heldur af þeim sökum dómaranámskeið sem er eingöngu fyrir konur á þriðjudaginn kemur.

Magnús Már Jónsson, dómarastjóri KSÍ, sagði við mbl.is að mikill áhugi væri innan sambandsins fyrir því að auka hlut kvenna á þessu sviði en til þessa hafa fáar konur starfað á þeim vettvangi fótboltans hér á landi.

Námskeiðið fer fram í höfuðstöðvum KSÍ á Laugardalsvelli, hefst klukkan 18 og stendur í tvo tíma. Bríet Bragadóttir og Rúna Kristín Stefánsdóttir, sem hafa starfað sem KSÍ-dómarar um árabil, segja frá reynslu sinni af dómarastörfum og þá verður fyrirlestur um aðstoðardómgæslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert