Sara fékk högg á lærið – fer til Algarve

Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir. mbl.is/Golli

Landsliðskonan Sara Björk Gunnarsdóttir, leikmaður knattspyrnuliðsins Wolfsburg í Þýskalandi, meiddist lítillega á læri á æfingu hjá liðinu í vikunni og lék ekki með liðinu gegn Bayer Leverkusen í dag vegna meiðslanna.

Meiðslin eru hins vegar ekki alvarleg og setja ekki strik í reikninginn varðandi þátttöku hennar í Algarve-bikarnum með íslenska landsliðinu á næstu dögum.

„Ég fékk högg á lærið á æfingu í vikunni og það var ákeðið að ég hvíldi. Þetta var ekkert alvarlegt. Ég fer svo til Algarve á morgun og verð klár í fyrsta leikinn þar,“ sagði Sara Björk við mbl.is í dag. 

Wolfsburg, án Söru, burstaði Leverkusen 8:1 á útivelli og komst með því á topp þýsku 1. deildarinnar en Turbine Potsdam gæti náði efsta sætinu á ný síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert