Finnst 4:0 ekki ósanngjarnt

Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari.
Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér finnst 4:0 ekki ósanngjarnt miðað við gang leiksins. Þó þetta hafi verið klaufaleg mörk fannst mér þær líklegri lengstum köflum leiksins. Við eigum einhverjar rispur í leiknum en þær eiga sigurinn skilið og við getum ekkert sagt við þessu," sagði Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvennalandsliðsins í knattspyrnu eftir 4:0 tap gegn Hollandi í vináttuleik ytra í dag. 

Holland var 1:0 yfir í hálfleik, en annað markið þeirra kom í upphafi seinni hálfleiks. 

Ánægður með hugarfarið en ekki frammistöðuna

„Ég er ósáttur við að fá á mig mark snemma í seinni hálfleik en ég er ánægður með hugarfarið. Þegar við erum tveim og svo þrem mörkum undir í seinni hálfleik, þá héldum við áfram og reyndum að gera hlutina betur. Ég er ekki óánægður með hugarfarið, en ég er óánægður með frammistöðuna."

Elísa Viðarsdóttir þurfti að fara út af vegna hnémeiðsla í upphafi leiks. Freyr ekki ekki viss hversu alvarlegt það er. 

„Rakel kom inn og spilaði ágætlega, þó hún hafi átt þátt í fyrsta markinu. Ég held það hafi ekki spilað inn í, þó það sé alltaf erfitt að missa mann snemma út af. Við vitum ekki hvað er að, en þetta er í hnénu á henni. Hún er í meðferð núna og læknar eru að skoða hana, vonandi vitum við meira á morgun."

Hallbera Gísladóttir átti erfiðan dag gegn hinni gríðarsterku Shanice van der Sanden. 

„Van der Sanden er frábær leikmaður og öll fremsta línan hjá Hollandi eru frábærir leikmenn, en Hallbera var greinilega ekki búin að jafna sig. Hún hefur átt við veikindi að stríða og ökklinn á henni var ekki eins góður og við héldum. Ég hefði mögulega átt að taka hana fyrr út af."

Freyr segir eitt af því fáa jákvæða við þennan leik, er að þessi skellur hafi komið núna, en ekki á Evrópumótinu í júlí. 

100% að við mætum klár í júlí

„Ég tek jákvætt út úr þessu að við fáum skell núna og gerðum þessi mistök núna. Við ætlum að laga og læra af þessum leik og sjá til þess að hann nýtist okkur til að vera betra lið og betur undirbúin fyrir júlí. Það er klárt mál að þessi leikur verður ekki tekinn og grafinn, hann verður krufinn til mergjar og við verðum í toppstandi í júlí. Ég get lofað þér því, það er 100% að við mætum algjörlega klár í slaginn," sagði Freyr ákveðinn að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert