Söguleg þrenna hjá Lennon

Steven Lennon sækir að marki ÍA í leiknum á Akranesi …
Steven Lennon sækir að marki ÍA í leiknum á Akranesi í gær. mbl.s/Eggert Jóhannesson

Steven Lennon úr FH varð i gær fyrstur til að skora þrennu í fyrstu umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu á þessari öld en hann gerði þá þrjú marka FH í 4:2 sigri gegn ÍA á Akranesi.

Sá síðasti til að afreka slíkt var Steingrímur Jóhannesson, sóknarmaður ÍBV, sem skoraði fjögur mörk í fyrstu umferðinni árið 1999 þegar Eyjamenn hófu tímabilið á stórsigri gegn Leiftri á Hásteinsvelli, 5:0. Steingrímur skoraði fjögur fyrstu mörkin í leiknum áður en Rútur Snorrason innsiglaði sigurinn með fimmta markinu.

Þetta er önnur þrennan sem Lennon skorar í deildinni en hann gerði líka þrjú mörk í 4:2 sigri FH á Leikni R. 31. maí 2015. 

Lennon varð þriðji FH-ingurinn til að skora þrennu á Akranesvelli á sex árum. Atli Guðnason skoraði þrjú mörk í 7:2 sigri FH-inga þar árið 2012 og Björn Daníel Sverrisson gerði fjögur marka FH í 6:2 sigri á sama velli árið 2013.

Þá er þetta fyrsta þrenna FH-ings í deildinni í tæp tvö ár, eða síðan Kristján Flóki Finnbogason gerði þrennu í Eyjum 14. júní 2015. Tímabilið í fyrra, 2016, var það fyrsta hjá FH frá 2010 þar sem enginn leikmanna liðsins gerir þrjú mörk í leik í efstu deild.

Þrennan er um leið sú fyrsta í sögunni sem skoruð er í aprílmánuði í efstu deild hér á landi, enda voru leikir gærdagsins þeir fyrstu sem háðir eru í apríl á Íslandsmóti karla.

Pálmi Rafn Pálmason, núverandi KR-ingur, hafði áður gert þá þrennu sem skoruð var fyrst á árinu. Pálmi skoraði öll þrjú mörk Vals í sigri á Grindavík, 3:0, 14. maí árið 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert