„Við gerðum þetta þægilegt fyrir okkur“

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks.
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við gerðum þetta nokkuð þægilegt fyrir okkur með því að komast strax yfir en við spiluðum heilt yfir bara flottan leik. Sigurinn var sannfærandi og flottur. Þetta var kannski besti leikurinn okkar í langan tíma og allt jákvætt við þetta,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks, eftir 6:0 sigur liðsins á KR í Pepsi-deild kvenna í kvöld.

Sjá frétt mbl.is: Stórsigur Breiðabliks á heimavelli

Breiðablik var með tögl og hagldir inni á vellinum nær allan leikinn og var sigurinn nokkuð þægilegur.

„Þetta var planið, við ætluðum að pressa hátt og taka frumkvæðið að öllu sem var að gerast inni á vellinum og við gerðum það. Við sýndum virkilega góðan leik, uppspilið var gott og við sköpuðum fullt af færum.“

Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði þrennu og Fanndís Friðriksdóttir skoraði tvö mörk í kvöld. Það hlýtur að vera gott fyrir þjálfara að leikmennirnir hans séu í undirbúningi fyrir EM í knattspyrnu síðar í sumar og vilji sýna að þeir séu í formi.

„Já það skiptir máli að sjálfstraust sé til staðar fyrir EM og parturinn að því er að spila vel á Íslandsmótinu. Leikmenn gera sér alveg grein fyrir því að grunnurinn er Íslandsmótið og spilamennskan með Breiðablik fram að EM,“ sagði Þorsteinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert