„Þurfti ekki að grafa djúpt“

Logi Ólafsson fyrir leik Víkings Reykjavíkur gegn KA í dag.
Logi Ólafsson fyrir leik Víkings Reykjavíkur gegn KA í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Logi Ólafsson stýrði sínum mönnum í Víkingi Reykjavík í fyrsta skipti í dag þegar þeir mættu KA á Akureyri í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Víkingar náðu í gott jafntefli eftir þrjá tapleiki í röð og eftir að hafa lent 2:0 undir í leiknum. Logi var inntur eftir ýmsu eftir leik.

Velkominn aftur í boltann Logi. Það verður eftirsjá af þér úr Pepsi-mörkunum og allar auglýsingarnar sem þið gerðuð fyrir þáttinn eru nú ónýtar. Hvað varstu að hugsa?

„Skjótt skiptast veður í lofti og ég hef sagt það áður að þetta kom dálítið óvænt upp og varla hægt að hafna því að taka við Víkingunum.“

Ertu ánægður að vera kominn aftur í hringiðuna?

„Já. Það þurfti ekki mikið til að rifja þetta upp og ég þurfti ekki að grafa djúpt eftir þessari löngun.“

Ég tók eftir því að þú varst strax kominn með fjögurra manna varnarlínu.

„Já það passar. Við lögðum upp með 4-3-3 og reyndum að undirbúa okkur vel, breyta litlu og koma áherslum inn í smærri skömmtum. Við reyndum bara að nálgast þetta á jákvæðum nótum.“

Þú hlýtur að vera ánægður með að liðið hafi náð að jafna eftir að hafa lent 2:0 undir og skammt til leiksloka.

„Ég er það svo sannarlega. Það er líklegast það jákvæðasta sem við fengum út úr þessum leik, þrátt fyrir að hafa spilað nokkuð vel á löngum köflum. Við sköpuðum besta færið í fyrri hálfleik og mark úr því hefði breytt öllu. Það jákvæða er að liðið, sem búið var að tapa þremur leikjum í röð og komið 2:0 undir sýnir þann styrk að koma til baka gegn mjög sterku liði KA.“

Hvernig líst þér svo á strákana?

„Ég er með fámennan hóp og líst vel á hann. Við erum með nokkra unga stráka sem við þurfum að stóla á og ég mun ekki hika við að nota þá ef þeir sýna mér að þeir séu nógu góðir,“ sagði Logi að skilnaði.

Logi Ólafsson fyrir leik Víkings Reykjavíkur gegn KA í dag.
Logi Ólafsson fyrir leik Víkings Reykjavíkur gegn KA í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert