Unglingurinn tryggði Þór/KA nauman sigur

Þór/KA vann sinn níunda leik í röð í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í dag. Akureyringar fóru þá í heimsókn í Kaplakrika og unnu 1:0 sigur á FH og er toppliðið því enn með fullt hús stiga þegar mótið er hálfnað. Karen María Sigurgeirsdóttir skoraði sigurmarkið í blálokin, en hún er fædd árið 2001 og verður 16 ára á fimmtudaginn kemur. 

Fyrri hálfleikurinn var með rólegra móti. FH-liðið var aftarlega á vellinum og komst Þór/KA lítið áleiðis gegn sterkri vörn. Nánast allar tilraunir gestanna voru fyrir utan teig og fóru yfir eða fram hjá á meðan FH skapaði sér lítið. Staðan í hálfleik var því markalaus.

Seinni hálfleikur byrjaði á sömu nótum og sá fyrri endaði. Þór/KA var töluvert meira með boltann, en sem fyrr gekk þeim illa að skapa sér alvöru færi. FH lokaði á allt sem toppliðið reyndi og var komin ákveðinn pirringur í gestina, eftir því sem leið á seinni hálfleikinn.

Á síðustu tíu mínútunum voru það FH-ingar sem voru nálægt því að tryggja sér sigurinn þegar skot Diljár Ýrar Zomers langt utan af velli fór hársbreidd yfir þegar skammt var eftir. Þór/KA átti hins vegar lokaorðið. Þegar ein mínúta var eftir af leiknum stýrði Karen María Sigurgeirsdóttir boltanum í bláhornið með höfðinu eftir sendingu Huldu Bjargar Hannesdóttur. Karen hafði aðeins verið inni á í tæpar tvær mínútur þegar markið kom. 

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is.

FH 0:1 Þór/KA opna loka
90. mín. Sandra María Jessen (Þór/KA) á skot sem er varið Beint á Harris. Þremur mínútum er bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert