Má ekki gleyma sér svona

Kwame Quee úr Víkingi Ó. brunar fram hjá Dofra Snorrasyni …
Kwame Quee úr Víkingi Ó. brunar fram hjá Dofra Snorrasyni í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorsteinn Már Ragnarsson, sóknarmaður Víkinga frá Ólafsvík, var ánægður með fyrri hálfleikinn en ekki þann síðari þegar liðið tapaði 2:0 fyrir Víkingum í Reykjavík í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld.

„Fyrri hálfleikurinn var bara 50/50 leikur og mikil barátta en seinni hálfleikurinn var ekki nógu góður hjá okkur. Þeir komu sterkir út eftir hlé, tóku strax yfirhöndina og skoruðu. Það var vont, mörkin þeirra bæði voru ódýr – mörk sem við eigum ekki að gefa – en við verðum bara að læra af þessu og vonandi komum við sterkari til baka,“ sagði Þorsteinn.

Víkingar R. gerðu út um leikinn með marki á 84. mínútu þegar varnarmenn Ólafsvíkinga virtust missa einbeitinguna við innáskiptingu heimamanna. Þeir misstu af Alex Frey Hilmarssyni sem skoraði sitt seinna mark, 2:0.

„Menn voru ekki á tánum í innáskiptingunni og það má ekki, það er ekki hægt að gleyma sér svona,“ sagði Þorsteinn en tók undir að mikil batamerki hefðu verið á leik Ólafsvíkinga að undanförnu.

„Já, algjörlega, síðustu tveir leikir okkar hafa verið mjög góðir, gegn Fjölni og Stjörnunni, og við héldum áfram á sama hátt í fyrri hálfleiknum í kvöld. En seinni hálfleikurinn var ekki alveg það sem við ætluðum að gera. Við verðum bara að gleyma þessu og halda áfram að bæta okkur eins og við höfum verið að gera að undanförnu. Þriggja manna vörnin okkar virkar, við erum að læra inn á leikaðferðina smám saman og þurfum aðeins að fínpússa þetta betur,“ sagði Þorsteinn Már Ragnarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert