Flúðu Mexíkó og lifa í draumi á Akureyri

Bianca Sierra er lykilmaður í liði Þórs/KA
Bianca Sierra er lykilmaður í liði Þórs/KA mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Úr eldhúsinu í litla húsinu sem Bianca Sierra og Stephany Mayor búa á Akureyri, sjá þær yfir knattspyrnuvöllinn þar sem þær æfa á hverjum degi. Stephany segist vera að upplifa drauminn á Akureyri, að fá að spila knattspyrnu í efstu deild á Íslandi og að sofa svo nálægt vellinum. „Þetta er eins og að vera í La Masia,“ segir hún og vísar þar til félagsheimilisins fræga á heimavelli knattspyrnuliðs Barcelona, Camp Nou. Þannig hefst viðtal við tvær öflugar knattspyrnukonur, sem margir íslenskir knattspyrnuáhugamenn þekkja eflaust, sem birtist í New York Times í dag.

Stephany og Bianca spilar báðar knattspyrnu með Þór/KA á Akureyri og gegna lykilhlutverki í liðinu sem er með góða forystu á toppi Pepsi-deildar kvenna. Þær eru par og flúðu frá Mexíkó til Íslands til að losna undan fordómum, sem eru mjög ríkjandi í garð samkynhneigðra þar í landi.

Knattspyrnusamband Mexíkó hefur ítrekað fengið sektir frá Alþjóða knattspyrnusambandinu, FIFA, fyrir að hunsa hómófóbísk framköll stuðningsmanna mexíkósku liðanna. Þá hefur FIFA varað sambandið við að verði ekki tekið á málum, verði hugsanlega gripið til þess ráðs að stöðva leiki þar sem hómófóbísk frammíköll heyrast.

Fyrstar til að stíga fram sem samkynhneigðar

Bianca og Stephany vildu einfaldlega geta notið þess að vera saman og jafnframt að spila knattspyrnu. Í viðtalinu segja þær sögu sína og lýsa fordómunum sem þær máttu þola í Mexíkó, þar á meðal frá þjálfara sínum í mexíkóska landsliðinu, sem hvatti þær til að halda sambandinu leyndu.

Þær eru líklega fyrstu samkynhneigðu mexíkósku atvinnuíþróttamennirnir til að tala opinskátt um samkynhneigð sína, en þær spiluðu báðar með landsliði Mexíkó á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu árið 2015.

Vildi ekki sjá þær haldast í hendur

Bianca og Stephany kynntust árið 2010 þegar þær spiluðu með unglingalandsliði Mexíkó á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi, en ástin byrjaði ekki að blómstra fyrr en þremur árum síðar, þegar þær voru kallaðar í landsliðið.

Þær voru fljótt opnar með samband sitt við liðsfélaga, fjölskyldu og vini. Þær deildu alltaf herbergi þegar þær voru á ferðalagi með liðinu og voru alltaf saman.

Stephany Mayor með boltann, en hún er að slá í …
Stephany Mayor með boltann, en hún er að slá í gegn fyrir norðan. mbl.is/Golli

Það var svo á Kýpur árið 2015, þar sem þær tóku þátt í alþjóðlegu móti til undirbúnings fyrir heimsmeistaramótið, að þjálfari liðsins, Leonardo Cuéllar, sagði að honum væri sama hvort stelpur í liðinu ættu kærustur, en hann vildi ekki sjá þær haldast í hendur, eða láta vel að hvor annarri. Þeim þótti þetta mjög óþægilegt og ósanngjarnt, en ákváðu engu að síður að fara með liðinu á HM í knattspyrnu það sama ár, vegna áeggjan og stuðnings liðsfélaga sinna.

Þær gáfu hins vegar ekki kost á sér í landsliðið í febrúar á síðasta ári og voru þá báðar farnar að leita tækifæra annars staðar. Úr varð að Bianca fór til Noregs og Stephany til Íslands þar sem hún komst á samningi hjá efstu deildar liði Þórs/KA. Henni leið svo vel á Akureyri að hún reyndi strax á fá kærustuna til að koma líka. Það gekk eftir og Bianca mætti til Akureyrar fyrr á þessu ári.

„Myndum kveikja í ykkur“

Í júní síðastliðnum ákváðu þær svo að opinbera samband sitt á samfélagsmiðlum. Í kjölfarið fengu þær yfir sig miklar svívirðingar, fúkyrði og hótanir, aðallega þó frá spænskumælandi fólki. „Mér býður við ykkur. Í mínu hverfi myndum við kveikja í ykkur,“ var skrifað í einni athugasemd. Ensku athugasemdirnar voru hins vegar langflestar jákvæðar.

Í viðtalinu segja þær að þeim líði vel á Akureyri. Þeim hafi verið tekið opnum örmum, jafnvel fagnað á götum úti, og að þjálfarinn kunni að meta hæfileika þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert