Harðsóttir sigrar hjá Þór og Keflavík

Jóhann Helgi Hannesson skoraði sigurmark Þórsara í dag.
Jóhann Helgi Hannesson skoraði sigurmark Þórsara í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Keflavík og Þór unnu bæði sigra í 1. deild karla, Inkasso-deildinni í knattspyrnu í dag þegar tveir leikir fóru fram í deildinni er 13. umferðin kláraðist.

Keflavík vann Leikni Fáskrúðsfirði 4:2 og Þór vann dramatískan útisigur á Selfossi, 3:2 þar sem sigurmark Jóhanns Helga Hannessonar kom í blálok leiksins.

Sigur Keflvíkinga var einnig harðsóttur en staðan var jöfn, 2:2 á 80. mínútu er Hilmar Freyr Bjartþórsson jafnaði metin fyrir Leiknismenn. Fannar Orri Sævarsson og Jeppe Hansen skoruðu hins vegar tvö mörk fyrir Keflvíkinga á 84. og í uppbótartíma og tryggðu þeim sigurinn.

Valdimar Ingi Jónsson kom Leikni yfir strax á 4. mínútu. Frans Elvarsson jafnaði fljótlega og Adam Árni Róbertsson kom Keflavík í 2:1 í byrjun síðari hálfleiks.

Keflavík fer með sigri sínum í 27 stig þar sem liðið er í 2. sæti tveimur stigum á eftir Fylki í toppsætinu.

Á Selfossi komust heimamenn í 1:0 með marki frá James Mack í fyrri hálfleik en Stipe Barac jafnaði metin á 54. mínútu. Svavar Berg Jóhannsson kom Selfossi yfir á 73. mínútu en Gunnar Örvar Stefánsson jafnaði metin á ný fyrir Þór, 2:2. Jóhann Helgi skoraði svo sigurmarkið í uppbótatíma.

Þór fer með sigrinum á Selfossi í 22 stig og er liðið þar í 4. sæti. Selfoss hefur 18 stig í 6. sætinu.

Leiknismenn hafa 7 stig í botnsætinu en þeir eru fjórum stigum frá ÍR sem er í síðasta örugga sæti deildarinnar.

Mörkin eru fengin frá Fótbolta.net. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert