Bera mikla virðingu fyrir FH-ingum

Pétur Viðarsson og Emil Pálsson fagna marki í síðustu umferð …
Pétur Viðarsson og Emil Pálsson fagna marki í síðustu umferð gegn Víkingi frá Færeyjum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Darko Milanic, þjálfari Maribor frá Slóveníu, ber mikla virðingu fyrir FH en liðin mætast í fyrri viðureign sinni í 3. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu ytra í kvöld.

„Við erum tilbúnir í slaginn eins og alltaf. Það mikilvægasta sem við höfum lært um mótherjann er að þetta er lið sem kann að spila fótbolta. Fólk heldur að íslensk knattspyrna sé ekkert sérstök, en við vitum að þetta er mjög gott lið. Þeir spila mjög hratt og halda sig við skipulagið. Við tökum þá alvarlega og þannig munum við koma inn í leikinn. Við ætlum okkur að vinna,“ sagði Milanic.

Hann sagði á fréttamannafundi í gær að hann gæti stillt upp sínu sterkasta liði og meðal þeirra er vinstri bakvörðurinn Mitja Viler sem einnig sat fyrir svörum á fundinum.

„Það er kostur að spila fyrri leikinn á heimavelli. Við viljum ekki fá mark á okkur og það myndi gera mikið fyrir okkur. Íslendingarnir eru með mjög gott lið og hafa unnið marga titla á síðustu árum. Við erum búnir að undirbúa okkur vel,“ sagði Viler.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert