Ofboðslega svekkjandi niðurstaða

Úlfur Blandon, þjálfari Vals.
Úlfur Blandon, þjálfari Vals. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Þetta er ofboðslega svekkjandi niðurstaða, einkum og sér í lagi þegar litið er til þess vinnuframlags sem við lögðum í leikinn. Við gáfum allt sem við áttum í leikinn og skildum allt eftir á vellinum en því miður dugði það ekki til,“ sagði Úlfur Blandon, þjálfari Vals, eftir 1:0-tap liðsins gegn Stjörnunni í undanúrslitum Borgunarbikars kvenna í knattspyrnu í dag.

„Það var lítið sem skildi liðin að í þessum leik og þetta var mjög jafn leikur sem hefði getað dottið hvorum megin sem var. Þær skoruðu markið sem réði úrslitum og við sitjum því eftir með sárt ennið. Við hefðum allt eins getað farið með sigur af hólmi að mínu mati,“ sagði Úlfur um þróun leiksins.

„Við sköpuðum nokkur fín færi til þess að skora sigurmarkið en því miður náðum við ekki að skora. Við áttum nokkrar fínar fyrirgjafir sem við hefðum getað gert okkur meiri mat úr. Það vantaði reyndar stundum meiri klókindi í sóknaraðgerðir okkar, en við verðum bara að læra af því,“ sagði Úlfur enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert