Blanda KR-ingar sér í toppbaráttuna í kvöld?

Haukur Páll Sigurðsson og Óskar Örn Hauksson mætast í kvöld.
Haukur Páll Sigurðsson og Óskar Örn Hauksson mætast í kvöld. mbl.is/Golli

Fjórir leikir fara fram í 15. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld þar sem áhugaverðir toppbaráttuslagir eru á dagskrá.

Það er Reykjavíkurslagur í vesturbænum þar sem KR tekur á móti toppliði Vals. Valur er með fimm stiga forskot á toppnum en KR getur jafnað FH að stigum með sigri og farið að blanda sér í baráttuna í efri hlutanum.

Stjarnan er í öðru sæti og heimsækir KA-menn, sem eru án sigurs í síðustu þremur leikjum og farnir að nálgast fallsvæðið. ÍA er enn á botninum og heimsækir Grindvíkinga, sem hafa tapað fjórum leikjum í röð. Skagamenn eru sex stigum frá öruggu sæti fyrir leikinn.

Þá mætast Breiðablik og Víkingur Reykjavík í Kópavoginum, en eitt stig skilur liðin að um miðja deild.

18.00 KA – Stjarnan
18.00 Breiðablik – Víkingur R.
18.00 Grindavík – ÍA
18.30 KR – Valur

Allir leikirnir verða í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert