„Hefðum getað nýtt liðsmuninn betur“

Baldur í skallaeinvígi við Callum Williams í kvöld.
Baldur í skallaeinvígi við Callum Williams í kvöld. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Baldur Sigurðsson, fyrirliði Stjörnunnar, var gripinn á handklæðinu eftir að hans menn höfðu gert 1:1 jafntefli gegn KA í Pepsi-deildinni í kvöld. Baldur var, eins og líklega flestir, heldur fúll með úrslitin en lið Stjörnunnar spilaði manni fleiri stærstan hluta síðari hálfleiks.

Stjarnan jafnaði leikinn á 85. mínútu en hefði átt að nýta sér liðsmuninn betur.

„Auðvitað er maður svekktur og ég held að hvort lið líti á þessi úrslit sem tvö töpuð stig. Þeir ætluðu að hanga á þessu marki sínu og við hefðum átt að skapa fleiri færi manni fleiri. Svona er þetta bara og þrjú stig hefðu verið vel þegin til að halda okkur í toppbaráttunni. Við hugsum bara um okkur og eigum ennþá séns. Það eru sjö leikir eftir. Þetta var vissulega hörku leikur, mikið um pústra og Erlendur dómari var nokkurn veginn með allar ákvarðanir réttar. Ég á eftir að sjá betur hvað varð til þess að hann rak Hólmbert út af en það er dýrt fyrir okkur að missa hann í bann og ef ákvörðunin var rétt þá er þetta bara glórulaust hjá Hólmberti. Ég trúi bara ekki að þetta spjald hafi verið réttmætt.“

Þú sjálfur fékkst nokkur færi og hefðir getað skorað.

„Ég fékk nóg af færum og hefði átt að skora. Ég gerði bara ekki nógu vel í þeim og mark hefði komið okkur inn í leikinn þegar nægur tími var eftir. Ég er bara svekktur með þetta. Þeir voru mjög þéttir manni færri og erfitt að opna þá. Við reyndum að komast upp að endamörkum og gefa boltann fyrir en það tókst of sjaldan. Markið kom einmitt upp úr slíkri sókn og frábærum skalla frá Guðjóni. Jobbi náði svo að renna boltanum í markið og við hefðum fengið víti ef hann hefði ekki skorað. Markið var gott en við hefðum getað nýtt liðsmuninn enn betur“ sagði Mývetningurinn Baldur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert