Afar mikilvægur fallslagur í kvöld

Pablo Punyed, Sindri Snær Magnússon og Alfreð Már Hjaltalín í …
Pablo Punyed, Sindri Snær Magnússon og Alfreð Már Hjaltalín í leik ÍBV og Víkings Ólafsvíkur. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Það er gríðarlega mikilvægur fallslagur í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld þegar bikarmeistarar ÍBV fá Víking Ólafsvík í heimsókn í næstsíðasta leik 15. umferðar deildarinnar.

Eyjamenn eru í næstneðsta sæti, fallsæti, með 13 stig fyrir leikinn en Ólafsvíkingar eru með þremur stigum meira í sætinu fyrir ofan. Vinni Eyjamenn verða liðin því jöfn að stigum, en fari Ólsarar með sigur af hólmi verða þeir komnir sex stigum frá falli.

Eyjamenn fóru með 3:0-sigur af hólmi í fyrri leik liðanna í Ólafsvík þann 21. maí síðastliðinn þar sem Guðmundur Steinn Hafsteinsson í liði heimamanna fékk meðal annars að líta rauða spjaldið.

Úrslitin gætu líka haft mikið að segja fyrir botnlið ÍA. Skagamenn eru með 10 stig þegar sjö leikir eru eftir og er staðan orðin ansi svört.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert