Öndum í hnakkann á hinum liðunum

Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV.
Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vissum ekki alveg hverju við máttum búast af andstæðingnum en Skagamenn spiluðu eins og þeir hafa gert undanfarna leiki,“  sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV, eftir 1:0 baráttusigur á Skagamönnum á Akranesi í dag í sannkölluðum fallslag efstu deildar karla í fótbolta, Pepsi-deildinni.

„Við vorum tilbúnir fyrir það, héldum boltanum ágætlega í fyrri hálfleik og höfðum ágæta stjórn á leiknum en man samt ekki hvort við fengum mörg færi en í seinni hálfleik komu þeir dýrvitlausir út og við vorum ekki nógu skynsamir með boltann, langt í frá.  Við höfðum teiknað upp hvernig við ætluðum að spila en gerðum það ekki svo þetta varð leikur í járnum þar til hann var flautaður af enda skildi bara eitt mark liðin að.“

Þó að nýbakaðir bikarmeistarar úr Eyjum séu nú 6 stigum á undan ÍA er kálið ekki sopið. „Við erum ekki hólpnir og sigurinn var mikilvægur til að komast í alvöru nær liðunum, sem eru fyrir ofan okkur.  Jafntefli hefði jafnvel haldið okkur lifandi en þrjú stig skipta svo miklu máli og við öndum verulega ofan í hnakkann á liðunum fyrir ofan okkur.   Við töluðum um að við værum í þremur úrslitaleikjum á átta dögum, unnum tvo og töpuðum einum, sem er ágætis uppskera.  Við vorum ekki alveg tilbúnir í síðasta leik en vorum það núna og ég vona bara  að leikmenn okkar átti sig á hvað búa í þeim mikil gæði, sýni sinn rétta karakter eins og þeir gerðu fyrri hálfleik en við eigum alls ekki að detta svona niður í síðari hálfleik,“  bætti Kristján við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert