Besta markið mitt á ferlinum

Króatíski miðjumaðurinn Igor Jugovic skoraði bæði mörk Fjölnis í 2:1-sigrinum á FH í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag. Mörkin voru þau fyrstu hjá Jugovic á leiktíðinni og segir hann að þau hafa verið afar mikilvæg, en Fjölnir er nú fjórum stigum frá fallsæti þegar tvær umferðir eru eftir. 

„Fyrra markið mitt var það fyrsta á leiktíðinni og það var örugglega mikilvægasta markið okkar í allt sumar. Þetta var mjög mikilvægur leikur hjá okkur og ég var heppinn að ná að skora tvö mörk.“

Var þetta besta frammistaða Jugovic síðan hann gekk í raðir Fjölnis? 

„Ég skoraði tvö mörk og fólk segir að þetta hafi verið fullkomin frammistaða. Ég er hins vegar djúpur miðjumaður og ég hleyp og tækla mikið og fólk tekur kannski ekki eftir því. Þegar ég skora þá segir fólk um leið að ég sé maður leiksins. Ég hef oft spilað vel áður, en það má segja að þetta hafi verið mín besta frammistaða síðan ég kom til Fjölnis.“

Fyrra mark Jugovic var með skoti af um 35 metra færi eftir að Gunnar Nielsen, markmaður FH, sparkaði boltanum til hans. 

„Ég hef reynt að vippa yfir markmenn á æfingum og vippur og skot á lofti eru bestu mörkin. Þetta var besta markið mitt á ferlinum.“

Hann fagnaði með að rífa sig úr treyjunni en segir sér ekki hafa verið kalt. 

„Á þessu augnabliki var með ekki kalt. Adrenalínið var mikið og ég fékk allt liðið ofan á mig og mér var ekki kalt.“

Jugovic segir Fjölnismenn hafa fangað sigrinum vel, en hann vill sjá liðið klára tímabilið vel. 

„Við verðum að vera fljótir að gleyma þessum leik en við fögnuðum með að skvetta vatni á þjálfarann og við fögnuðum vel. Það eru hins vegar tveir leikir eftir og við verðum að klára tímabilið vel,“ sagði Króatinn að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert