Finnst við ekki geta tapað

Leifur Andri Leifsson, fyrirliði HK.
Leifur Andri Leifsson, fyrirliði HK. Ljósmynd/Víðir Sigurðsson

Leifur Andri Leifsson fyrirliði HK sagði eftir sigurinn á Keflavík í 1. deild karla í knattspyrnu, Inkasso-deildinni, 2:1 í Kórnum í dag að sjálfstraustið í liðinu væri gríðarlega mikið og leikmenn hefðu á tilfinningunni að þeir gætu ekki tapað.

HK, undir stjórn Jóhannesar Karls Guðjónssonar og með Pétur Pétursson sem aðstoðarþjálfara, hefur átt ótrúlegu gengi að fagna seinni hluta tímabilsins. Liðið var með 12 stig eftir fyrri umferðina en vann 10 af 11 leikjum sínum í seinni umferðinni og endaði með 42 stig í fjórða sætinu, aðeins fjórum stigum á eftir Keflavík sem fór upp ásamt Fylki.

Árangur HK í ár er sá besti frá 2009 þegar liðið hafnaði í 3. sæti 1. deildar en þá  fékk liðið 36 stig í jafnmörgum leikjum.

HK kom í veg fyrir titil hjá Keflavík.

Sigurinn í dag var verðskuldaður en HK var sterkari aðilinn mest allan tímann þrátt fyrir að hafa lent undir snemma leiks. Með þessum úrslitum kom HK í veg fyrir að Keflavík yrði meistari 1. deildar og Fylkir fékk 1. deildarbikarinn í staðinn eftir 2:1 sigur á ÍR.

„Við fengum á okkur klaufalegt mark uppúr okkar eigin hornspyrnu en eftir það fannst mér við stjórna leiknum. Undir lokin voru þeir komnir í löngu boltana og við duttum aftar á völlinn. Það var eina hættan sem þeir sköpuðu. Við gátum hinsvegar hæglega bætt við mörkum, ég held að Brynjar Jónasson hafi sloppið þrisvar einn gegn markmanninum hjá þeim á lokakaflanum. Sem betur fer, hans vegna, kláruðum við þetta!“ sagði Leifur Andri við mbl.is.

Fengum marga leikmenn seint

Spurður um ástæðurnar fyrir kaflaskiptu tímabili sagði Leifur að það hefði tekið tíma fyrir nýja leikmenn að falla inn í liðið.

„Við fengum marga leikmenn mjög seint inn til okkar og liðið breyttist því mikið frá því vetur. Það tók því sinn tíma að finna taktinn og læra inná hver annan og það gerðum við í fyrri umferðinni. Þessi hópur er mjög samstilltur, allir eru tilbúnir til að vinna hver fyrir annan, berjast allir sem einn, og ég tel að liðsheildin og vinnusemin hafi skapað þennan árangur.

Þá er sjálfstraustið gríðarlegt í hópnum því eftir að hafa unnið svona marga leiki þá líður manni inni á vellinum eins og maður geti ekki tapað. Við vitum að við erum með þrjá fáránlega góða menn frammi, við vitum að við  getum alltaf skorað mörk og eigum alltaf von á því að geta svarað fyrir okkur þó við lendum undir," sagði Leifur.

Með yngsta liðið í deildinni

Hann kvaðst vera bjartsýnn á framhaldið. „Já, framtíðin er björt hjá HK ef við náum að halda öllum þessum hópi saman. Nú fáum við leikmennirnir smá frí en ég ætla rétt að vona að stjórnin fari ekki í frí heldur festi menn niður og bæti við hópinn. Þetta er búið að vera frábært ár en það þýðir ekkert að slaka á, við verðum að halda áfram að sækja fram.

Við erum með nokkra menn í láni annars staðar frá og það er alltaf ákveðin óvissa sem fylgir því. Ef við höldum þeim ekki verður að leita annað til að fylla skörðin en síðan erum við með fullt af ungum strákum í hópnum. við erum með sjö stráka úr 2. flokki sem spiluðu mikið í sumar, ég er ekki frá því að við séum með yngsta liðið í deildinni. Ég held að ég sé orðinn elstur í liðinu en ég á nóg eftir!" sagði Leifur Andri sem er 27 ára gamall og var að ljúka sínu níunda ári í meistaraflokki HK.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert