Skoraði og gat lagt saman tvo og tvo

Emil Ásmundsson og Hákon Ingi Jónsson
Emil Ásmundsson og Hákon Ingi Jónsson Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Mér fannst mjög sætt að sjá á eftir boltanum í markið, maður heyrði á andrúmsloftinu í stúkunni að Keflavík væri undir eða að gera jafntefli og þegar maður sá fagnaðarlætin á bekknum þegar maður skoraði gat maður lagt saman tvo og tvo að bikarinn væri kominn heim,“ sagði Emil Ásmundsson, sem skoraði sigurmark Fylkis í 2:1 sigri á ÍR í Árbænum í dag þegar leikið var næstefstu deild karla í knattspyrnu, Inkasso-deildinni.  Sigurinn dugði til að komast upp fyrir Keflavík í efsta sætið því Suðurnesjamenn töpuðu fyrir HK.

„Ég veit ekki hvað var að gerast hjá okkur í byrjun leiks.  Fyrstu mínúturnar vorum við ekki alveg líkir sjálfum okkur en þegar við róuðum okkur aðeins niður, fórum að halda í boltann, láta ÍR-ingana hlaupa og dreifa spilinu þá small þetta hjá okkur.  Mér fannst við koma krafti inní seinni hálfleik og þó við fengjum mark á okkur þá héldum við áfram, gáfumst aldrei upp og skorum tvö mörk í lokin því þetta er ekki búið fyrr en dómarinn flautar.“ 

Emil segir hópinn tilbúinn fyrir efstu deildina.  „Ég ólst upp hérna hjá Fylki og hef verið hér, nema þegar ég fór til Englands, kom svo aftur heim og það er ansi sætt að vinna titil með uppeldisfélaginu sínu.   Fátt sem toppar það.  Ég hef þekkt alla þessa stráka í liðinum frá ég var í sjötta flokki, held að allir séu uppaldir nema tveir – annar þeirra bjó reyndar í Árbænum sem krakki og hinn erum við búnir að ættleiða svo hann er nú Árbæingur.“ 

Leikmannahópur Fylkis er að mestu byggður á heimamönnum - einn var ættleiddur, að sögn Emils.  „Að sjálfsögðu gefur aukakraft að þessi strákar hafi fengið tækifærið í sumar og það drífur okkur áfram að vera með kjarna af strákum sem þekkja félagið, söguna og eru tilbúnir að leggja allt undir.  Það fórna sér allir fyrir alla hérna.    Þegar við höfðum tryggt sæti í efstu deildinni um síðustu helgi byrjuðum við að hugsa aðeins um hana en markmiðið var alltaf að vinna þennan síðasta leik til að ná markmiði númer tvö, sem var að koma með þennan bikar heim.  Nú er smá frí og svo á fullu undirbúningur fyrir næstu deild, við erum ekkert að fara grínast þar heldur ætlum okkur stóra hluti.“

Tókum smá dýfu en vorum ekki stressaðir

 Oddur Ingi Guðmundsson átti góðan leik fyrir Fylki í sumar.  Hann er 28 ára og hóf leik með meistaraflokki Fylkis 2010, svo hann er með reyndari mönnum.  „Við vorum með smá fiðring fyrir leikinn í dag, vissum að hann yrði erfiður því ÍR er með gott og þétt lið,“ sagði Oddur eftir sigur Fylkis og að hafa lyft bikarnum.   „Við vorum ekkert að hugsa mikið um leik Keflavíkur við HK, því höfðum enga stjórn á honum svo við hugsuðum bara um að gera út um okkar leik.  Við vissum ekkert hvað var að gerast í þeim leik, alveg ótrúlega hvað hægt er að vera einbeittur og eina sem fór í gegnum hausinn á mér var næsta augnablik í leiknum.“

Fylkir vann 25 leiki í sumar og tapaði fjórum.  „Við tókum smá dýfu um miðbik tímabilsins en ekkert sem við vorum stressa okkur á, vissum að þetta yrði erfið deild og að við myndum tapa leikjum  því það eru allir leikir erfiðir en heilt yfir erum við mjög sáttir við tímabilið.   Við erum með góðan og samheldin hóp, þeir sem hafa komið inní hann hafa verið frábærir.  Kjarninn er Fylkismenn og ég tel okkur vel búna í efstu deild.   Við erum klárir fyrir hana.“

Góður hópur og ekkert vesen

Valdimar Þór Ingimundarson fékk eldskírnina með meistaraflokki Fylkis síðasta tímabil og hefur átt jafnan og góðan leik í sumar en hann er 18 ára.   „Ég var í hópnum  í fyrra og held að ég hafi spilað þrjá leiki.  Hópurinn núna er góður, allir vinir úr Árbænum og ekkert vesen.  Þjálfarar hélt okkur við efnið og minnti okkur reglulega á  hvað markmiðið væri svo einbeiting var mjög góð allt sumarið nema hvað það við töpuðum tveimur leikjum í röð en þjálfarinn var fljótur að rífa okkur í gang.   Ég hef lítið spáð í næsta ár en ef við höldum þessum hóp og bætum aðeins við  þá verður þetta bara enn betra hjá okkur.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert