Svo fegin að vera partur af þessu

Leikmenn fagna eftir að Sandra María Jessen gerði fyrsta markið …
Leikmenn fagna eftir að Sandra María Jessen gerði fyrsta markið í leiknum gegn Stjörnunni á dögunum- Anna Rakel Pétursdóttir faðmar Söndru og horfir beint í myndavélina. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Anna Rakel Pétursdóttir er heldur betur búin að gera það gott í sumar. Íslands- og bikarmeistaratitill í 2. flokki og Íslandsmeistaratitill í meistaraflokki í fótbolta. Rakel var á dögunum valin í A-landsliðið í fyrsta skipti. Hún er þó bara 19 ára nemandi við MA og þurfti að skrópa í skólann eftir hádegi í dag þar sem hún var að fara í mikilvægasta leik lífs síns.

Rakel er uppalin í KA, er með magnaðan vinstri fót og hefur verið mikill spyrnusérfræðingur frá fyrstu æfingu. Hún lagði upp fyrra mark Þórs/KA í dag í 2:0 sigri liðsins á FH. Sá sigur tryggði liðinu Íslandsmeistaratitilinn og var Rakel létt í leikslok.

„Já ég skrópaði í dag og ég held að það hafi verið þess virði. Ég er mjög ánægð með tímabilið hjá mér og okkur og finnst við alltaf hafa komið sterkar til baka eftir mótlæti eins og við sýndum þessum leik í dag. Nú verðum við að hugsa um hvernig við ætlum að verja titilinn á næsta ári. Ég er rétt að byrja og verð pottþétt með liðinu áfram.“

Þú sagðir einhvern tímann, þegar þú varst sirka tíu ára, að þú vildir bara spila fyrir KA en ekki Þór/KA.

„Þetta er hárrétt hjá þér en tímarnir breytast. Þessi félagsskapur er ótrúlega skemmtilegur og hópurinn er mjög samheldinn. Ég er bara svo fegin að vera partur af þessu, sé ekki eftir neinu,“ sagði Rakel skælbrosandi og skellihlæjandi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert