Dagný fyrst í 30 ár til þess að skora

Dagný Brynjarsdóttir kom Íslandi yfir gegn Þýskalandi.
Dagný Brynjarsdóttir kom Íslandi yfir gegn Þýskalandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dagný Brynjarsdóttir var rétt í þessu að koma Íslandi 1:0 yfir gegn Þýskalandi í undankeppni HM 2019. Þetta er fyrsta mark íslenska liðsins gegn Þýskalandi í A-landsleik kvenna í 30 ár en Ísland hafði ekki skorað í síðustu tíu viðureignum þjóðanna. 

Þetta er fyrsta markið sem Þýskaland fær á sig í þessari undankeppni, en liðið fékk ekki á sig mark í undankeppni EM 2017 og fyrsta markið sem Dagný skorar í undankeppni fyrir Ísland. 

Rússar voru síðasta liðið til þess að skora mark hjá Þjóðverjum í undankeppni stórmóta, en það kom í 4:1-sigri Þýskalands í undankeppni HM 2015 í Moskvu þann 13. september árið 2014.

Síðan þá höfðu Þjóðverjar skorað 47 mörk í röð í undankeppni stórmóta án þess að andstæðingar liðsins næðu að skora, en þýska liðið hafði ekki fengið á sig mark í ellefu leikjum í röð í undankeppni stórmóta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert