Landsliðstreyja forsetans boðin upp fyrir Grensás

Guðni Th. Jóhannesson í landsliðstreyjunni sem boðin verður upp.
Guðni Th. Jóhannesson í landsliðstreyjunni sem boðin verður upp. Ljósmynd/Hörður Snævar Jónsson

Landsliðstreyjan sem forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, klæddist á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu í sumar verður boðin upp á Jólabasar Grensáss í Safnaðarheimili Neskirkju á laugardag.

Guðni studdi vel við landsliðið í sumar og gaf Hollvinum Grensásdeildar landsliðstreyjuna sína áritaða til að afla fjár fyrir deildina, en brýnt er að byggja nýja álmu fyrir sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun. Uppboðið fer fram á laugardag, 11. nóvember, klukkan 13-17 en einnig er hægt að bjóða í treyjuna á netinu. Nánari upplýsingar um það má sjá á heimasíðu samtakanna, www.grensas.is.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem forsetinn leggur Grensásdeild lið, í Reykjavíkurmaraþoninu 2016 hljóp hann og safnaði áheitum fyrir deildina.

Jólabasarinn er ein megin fjáröflunarleið samtakanna

Jólabasarinn er árlegur viðburður og ein megin fjáröflunarleið samtakanna. Þar má meðal annars fá margs konar handunna listmuni, ullarvörur, skinnavöru, kransa og jólaljós, sem og nýbakaðar tertur og brauð. Við undirbúning basarsins leggja allir hönd á plóg, jafnt Hollvinir sem starfsfólk, skjólstæðingar og velunnarar Grensásdeildar. Mörg fyrirtæki gefa veglega happdrættisvinninga, og liðsmenn Sniglanna, vélhjólasamtaka Lýðveldisins, baka vöfflurnar og hita súkkulaðið. Það myndast alltaf mikil hlýja og jólastemning í kringum basarinn og undirbúning hans og ómetanlegt fyrir deildina að finna svona víðtækan velvilja.

Grensásdeild er miðstöð frumendurhæfingar eftir slys og sjúkdóma hér á landi. Um fjórðungur þeirra 400 sem útskrifast af Grensásdeild árlega hverfa til starfa á ný, en um tveir þriðju sjúklinganna eru á vinnufærum aldri.

„Jólabasarinn er er ekki aðeins fjáröflunarátak, heldur einnig tilefni til að fagna saman og þakka það góða starf sem unnið er á Grensásdeild. Það þekkja allir sem hafa dvalið þar eða eiga einhvern að sem hefur notið endurhæfingar á deildinni. Hollvinasamtökin styðja kaup á nauðsynlegum búnaði og vinna að endurbótum á allri aðstöðu fyrir bæði skjólstæðinga og starfsfólk deildarinnar. Langtímamarkmið Hollvina Grensásdeildar er að stuðla að gagngerum endurbótum á húsnæði deildarinnar. Mjög brýnt er að byggja nýja álmu fyrir sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun en einnig þarf að endurskipuleggja lóðina sem mætti gera að fallegum garði þar sem skjólstæðingar geta notið til útiveru, þjálfunar og hvíldar.“ Segir Guðrún Pétursdóttir formaður Hollvinasamtakanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert