Ragnheiður íhugar formannsframboð hjá KSÍ

Ragnheiður Ríkharðsdóttir er fyrrverandi alþingiskona.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir er fyrrverandi alþingiskona. Ljósmynd/Ómar Óskarsson

Ragnheiður Ríkharðsdóttir fyrrverandi alþingismaður og bæjarstjóri tilkynnti á Facebook-síðu sinni í kvöld að hún íhugi nú að bjóða sig fram sem formann KSÍ á ársþingi sambandsins 9. febrúar næstkomandi. 

Geir Þorsteinsson, fyrrverandi formaður KSÍ, tilkynnti á dögunum að hann ætli að taka slaginn gegn Guðna Bergssyni, sem hefur verið formaður undanfarin tvö ár. Ragnheiður íhugar nú að blanda sér í slaginn. 

Ragnheiður þekkir knattspyrnu afar vel. Faðir hennar er Ríkharður Jónsson, einn besti knattspyrnumaður Íslands frá upphafi, og sonur hennar er fyrrverandi landsliðsmaðurinn Ríkharður Daðason. 

„Í ljósi þess að Geir Þorsteinsson ætlar að bjóða sig fram til formanns KSÍ á nýjan leik þá er ég að velta fyrir mér að gefa kost á mér líka. Held að það gæti hleypt fjöri í kosninguna. Ég hef mikla stjórnunarreynslu sem og reynslu af félagsmálum, áhugamanneskja um fótbolta frá barnsaldri bæði sem dóttir og mamma, held að þessi reynsla mín gæti nýst í starfinu,“ skrifaði Ragnheiður á Facebook í kvöld. 

Ragnheiður, sem er 68 ára gömul, var bæjarstjóri Mosfellsbæjar frá 2002 til 2007 og á sat á Alþingi frá 2007 til 2016. Hún var formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins um þriggja ára skeið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert