Gott gengi Eyjakvenna hélt áfram

ÍBV er á mikilli siglingu.
ÍBV er á mikilli siglingu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eyjakonur unnu sterkan 1:0 sigur á Þór/KA þegar liðin mættust í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta í Vestmannaeyjum í dag. Eyjakonur hafa nú unnið sér inn 13 stig af síðustu 15 mögulegum. Karlina Miksone gerði sigurmarkið á 84. mínútu eftir sendingu frá Olgu Sevcovu.

Með sigrinum styrkir ÍBV stöðu sína í 4. sæti deildarinnar en liðið hefur nú jafnað Fylkiskonur að stigum.

Mikið jafnræði var í leiknum og hefði jafnteflið verið sanngjarnt, það sem skildi á milli var þó skallamark Karlinu sem reis hæst í teignum og stangaði knöttinn í netið af stuttu færi á elleftu stundu. Fyrir markið hafði Arna Sif Ásgrímsdóttir gjörsamlega átt vítateig norðankvenna og stangað boltann í burtu í á þriðja tug skipta.

Bæði lið áttu nokkur hálffæri sem þau hefðu getað nýtt betur og áttu Eyjakonur skot í stöng og slá, auk nokkurra opinna marktækifæra. Norðankonur gerðu einnig frábærlega í að fara upp að endalínu og koma knettinum fyrir markið en það vantaði alla grimmd í liðið þegar inn í teiginn var komið og vantaði þennan herslumun sem oft er talað um.

Gestirnir gerðu fimm breytingar á byrjunarliði sínu fyrir leikinn, ein breytingin var þvinguð en markvörður liðsins meiddist í leiknum gegn Breiðabliki í vikunni. Þær fimm sem komu inn í staðinn hafa allar átt betri leiki og virkaði markvörður liðsins, Laurie-Amie Allen, virkilega ósannfærandi, þá sérstaklega í upphafi leiks.

Arna Sif Ásgrímsdóttir bar af í liði gestanna en hún stjórnaði vörninni virkilega vel. Vörnin hjá ÍBV virkaði einnig mjög vel en það var helst þegar gestirnir sóttu utan á vörnina að þær fundu góð færi. Inni í miðri vörninni stóðu Júlíana Sveinsdóttir og Ragna Sara Magnúsdóttir sig virkilega vel.

ÍBV 1:0 Þór/KA opna loka
90. mín. 7 mínútur í uppbótartíma.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert