Aron Einar tjáir sig um mögulega heimkomu

Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. mbl.is/Óttar Geirsson

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu og leikmaður Al-Arabi í Katar, tjáði sig um mögulega heimkomu til Íslands á samfélagsmiðlinum X í gærkvöldi.

Aron Einar, sem er 34 ára gamall, hefur leikið í Katar frá árinu 2019 en hann leitar sér nú að nýju félagi þar sem hann er ekki í leikmannahóp Al-Arabi á yfirstandandi tímabili vegna útlendingakvóta sem er í gildi þar í landi.

Ætlar að ljúka ferlinum á Íslandi

Hann hefur verið orðaður við heimkomu í uppeldisfélag sitt Þór frá Akureyri að undanförnu en leikmaðurinn hefur sjálfur gefið það út að hann ætli sér að ljúka ferlinum á Íslandi með Þórsurum.

„Ekki alveg strax,“ skrifaði Aron við færslu sem birtist á X þar sem skorað var á hann að snúa aftur heim á Akureyri.

Aron á að baki 103 A-landsleiki fyrir Ísland þar sem hann hefur skorað fimm mörk en hann hefur leikið með AZ Alkmaar í Hollandi, Coventry og Cardiff á Englandi og Al-Arabi á atvinnumannsferlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert