Pólski forsætisráðherrann vildi drepa Howard Webb

Ivica Vastic tekur hér vítið sem réði úrslitum.
Ivica Vastic tekur hér vítið sem réði úrslitum. Reuters

Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, viðurkenndi í dag að hafa viljað enska dómarann Howard Webb feigan vegna vítaspyrnudóms þess síðarnefnda í leik Austurríkis og Póllands á EM í knattspyrnu í gær.

„Í dag verð ég að tala sem forsætisráðherra en í gærkvöld talaði ég á öðrum nótum. Mig langaði, líkt og alla aðra Pólverja, að drepa einhvern og þið vitið vel hvern,“ sagði Tusk í samtali við fjölmiðla í dag.

Vítið sem dæmt var á Pólland kom á lokaandartökum leiksins og varð til þess að Austurríki jafnaði metin, og þar með eru litlar sem engar líkur til þess að Pólland komist upp úr B-riðlinum.

„Dómarar gera auðvitað villur en þessi var sérstaklega slæm. Þetta var algjörlega ósanngjarnt og særði okkur öll. Það hefði verið skárra að tapa leiknum í fyrri hálfleik þegar Austurríki fékk nokkur góð færi,“ sagði Tusk, sem er mikill knattspyrnuunnandi.

Myndband af atvikinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert