Þjálfari Tyrkja: Höfum ekki náð markmiðum okkar

„Áður en við komum hingað spurðu margir hvort reynsla eða hungur yrði mikilvægara á þessu móti. Leikmenn mínir eru kannski óreyndir en þeir eru án nokkurs vafa hungraðir,“ sagði Fatih Terim, þjálfari tyrkneska landsliðsins sem mætir Þýskalandi kl. 18:45 í kvöld í undanúrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu.

„Reynsla er mikilvæg, en barátta og hungur leikmanna er alveg jafn mikilvæg,“  bætti Terim við.

Tyrkir hafa komið mörgum á óvart með óbilandi baráttu og þrautseigju á Evrópumótinu, þar sem þeir hafa unnið bæði Tékka og Króata með vægast sagt dramatískum hætti.

„Eitt af því sem við ákváðum fyrir þetta mót var að minna knattspyrnuheiminn á tyrkneska landsliðið. Allir, hvort sem þeir eru knattspyrnuáhugamenn eða ekki, eru núna að tala um Tyrkland. Árangur Tyrklands í ár mun verða fólki ofarlega í huga þegar það rifjar upp þetta mót eftir fjögur ár. En hvorki ég né leikmenn mínir teljum okkur hafa náð markmiðum okkar. Við munum gera okkar besta og berjast allt til enda,“ sagði Terim.

Terim er sannarlega vandi á höndum með að velja byrjunarlið því Tuncay Sanli, Arda Turan, Volkan Demirel og Emre Asik eru allir í leikbanni, og þeir Nihat Kahveci, Emre Gungor, Servet Cetin og Emre Belozoglu eru meiddir. 

Terim hefur haft góða ástæðu til að fagna sínum mönnum …
Terim hefur haft góða ástæðu til að fagna sínum mönnum á EM. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert