Sanngjarn sigur Norðmanna

Emil Hallfreðsson tæklar Ole Selnæs í leiknum í dag.
Emil Hallfreðsson tæklar Ole Selnæs í leiknum í dag. Ljósmynd/Fótbolti.net

Noregur sigraði Ísland, 3:2, í vináttulandsleik í knattspyrnu á Ullevål-leikvanginum í Osló í kvöld. Þetta var fyrri vináttuleikur Íslands af tveimur áður en Evrópumótið hefst en Ísland tekur á móti Lichtenstein á Laugardalsvelli 6. júní.

Það tók Norðmenn ekki nema 40 sekúndur að skora fyrsta mark leiksins í Osló í kvöld. Pål Andre Helland tók aukaspyrnu á vinstri kanti og eftir þvögu í teig Íslendinga barst boltinn á Stefan Johansen. Hann þrumaði boltanum að marki, boltinn fór af Sverri Inga og þaðan í markið.

Norðmenn voru mun hættulegri í fyrri hálfleik og það skapaðist oft mikið pláss milli miðju og varnar hjá íslenska liðinu. Það var því talsvert gegn gangi leiksins sem Sverrir Ingi Ingason jafnaði metin á 36. mínútu. Eftir stutta hornspyrnu kom Jóhann Berg boltanum inn í vítateig þar sem Sverrir stökk hæst og stangaði boltann í netið.

Norðmenn komust yfir fimm mínútum eftir jöfnunarmark Sverris. Pål Andre Helland tók aukaspyrnu rétt utan vítateigs og þrumaði boltanum í markið. Norðmenn með verðskuldaða 2:1 forystu þegar liðin gengu til búningsherbergja að loknum fyrri hálfleik.

Strákarnir reyndu að sækja meira í síðari hálfleik en gekk illa að skapa færi. Norðmenn voru ávallt hættulegir þegar þeir sóttu og þeir skoruðu þriðja mark sitt á 67. mínútu. Varamaðurinn Alexander Sörloth laumaði boltanum laglega yfir Ingvar Jónsson í markinu eftir skallasendingu frá Stefan Johansen.

Gylfi Þór Sigurðsson minnkaði muninn þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Eftir hornspyrnu frá hægri handlék Vegard Forren boltann og vítaspyrna dæmd. Gylfi Þór skoraði af miklu öryggi, setti boltann á mitt markið.

Fleiri mörk voru ekki skoruð og strákarnir urðu að sætta sig við 3:2-tap í hitanum í Noregi.

Noregur 3:2 Ísland opna loka
90. mín. Uppbótartíminn eru fjórar mínútur. Náum við að jafna?
mbl.is

LEIKIR Í DAG - 28. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 28. APRÍL

Útsláttarkeppnin