Borgarslagur af bestu gerð

Lee Carsley fagnar eftir að hafa skorað fyrir Everton í …
Lee Carsley fagnar eftir að hafa skorað fyrir Everton í nágrannaslag gegn Liverpool. IAN HODGSON

Stórleikur helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni er án efa grannaslagurinn í Liverpool-borg milli Everton og Liverpool á Goodison Park, heimavelli Everton. Fyrir bæði lið er þetta stærsti leikurinn á tímabilinu og er eftirvæntingin mikil meðal leikmanna, jafnt sem stuðningsmanna. Leikir liðanna eru nær undantekningalaust góð skemmtun þar sem ekkert er gefið eftir og oftar en ekki þarf dómarinn að grípa til þess úrræðis að lyfta rauða spjaldinu.

Everton hefur byrjað leiktíðina af krafti og er í fjórða sæti deildarinnar með sjö stig eftir þrjá leiki. Liðið byrjaði á að sigra nýliða Watford í fyrstu umferð, gerði jafntefli við Blackburn á útivelli og vann svo frækinn sigur á Tottenham á White Hart Lane, 2:0, þrátt fyrir að vera einum manni færri í klukkutíma.

Tim Cahill, leikmaður Everton, segir að leikmenn Liverpool óttist að mæta Everton í því formi sem liðið er í dag. "Þetta er stórleikur. Við höfum byrjað tímabilið frábærlega og ég held að Liverpool hafi viljað mæta öðrum andstæðingi þessa helgina og við hlökkum mikið til. Þetta er stærsti leikur tímabilsins og fyrir okkur er þetta eins og úrslitaleikur Meistaradeildarinnar. Þetta snýst ekki bara um leikinn um helgina heldur rétt aðdáenda til að monta sig eftir á. Hver einasti leikmaður félagsins nýtur þess að spila þessa leiki. Venjulega eiga allir leikir að vera eins en það er ekki í þessu tilfelli, þetta er Everton gegn Liverpool," segir Cahill og bætir við að þrátt fyrir mikinn fjandskap milli liðanna tveggja þá eigi leikmenn þeirra ágætis samskipti milli leikja. "Það er mikil stríðni milli okkar. Ég tala mikið við Harry Kewell auk þess sem John Arne Riise er nágranni minn."

Eftirminnilegar viðureignir

Liverpool hefur byrjað leiktíðina ágætlega og er með fjögur stig eftir tvo leiki. Liðið gerði jafntefli við nýliða Sheffield United í fyrstu umferðinni og lagði svo West Ham að velli þar síðustu helgi þar sem danski varnarmaðurinn Daniel Agger skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið með glæsilegum hætti.

Alls hafa liðin mæst 203 sinnum á knattspyrnuvellinum allt frá því að fyrsta viðureign liðanna fór fram árið 1894. Liverpool hefur sigrað 79 þessara leikja, Everton 63, og 61 sinni hefur orðið jafntefli.

Margar viðureignir þessara liða hafa verið sögulegar og ber einna helst að minnast úrslitaleiks ensku bikarkeppninnar árið 1989, þar sem Liverpool fór með sigur af hólmi, 3:2, í framlengdum leik. Af öðrum viðureignum liðanna má nefna 4:4 jafnteflið í 4. umferð ensku bikarkeppninnar í febrúar 1991, sem reyndist síðasti leikur Liverpool undir stjórn Kenny Dalglish. Liverpool náði fjórum sinnum forystu í leiknum en alltaf náði Everton að jafna og varð því að spila annan leik sem Liverpool sigraði í, 1:0.

Í september 1999 sigraði Everton á Anfield Road, 1:0, með marki frá Kevin Campbell. Þremur leikmönnum var vísað af leikvelli, Francis Jeffers hjá Everton og Liverpool leikmönnunum Sander Westerweld og Steven Gerrard, sem þá var að leika í fyrsta sinn gegn Everton. Þetta var ekki hans fyrsta brottvísun í grannaslag því honum var vísað af leikvelli í leik liðanna í mars síðastliðnum eftir aðeins 18 mínútna leik. Í desember 2004 vann Everton sinn fyrsta grannaslag undir stjórn David Moyes er Lee Carsley skoraði eina mark leiksins. Á síðustu leiktíð sigraði Liverpool í báðum viðureignum liðanna með sömu markatölu, 3:1.

Nokkrar staðreyndir um grannaslaginn

*Everton hefur leikið flesta leiki án taps, 14 talsins.

*Liverpool hefur leikið flesta leiki án taps á heimavelli þegar Everton náði ekki að sigra á Anfield Road í 14 leikjum tímabilin 1970/71 til 1984/85.

*Everton tapaði ekki gegn Liverpool á útivelli 15 leiki í röð á árunum 1899 til 1920. Þar af vann liðið 10 leiki.

*Liverpool vann stærsta sigurinn í grannaslagnum árið 1936 þegar liðið vann Everton 6:0.

*Neville Southall, fyrrum markvörður Everton, er sá leikmaður sem leikið hefur í flestum viðureignum þessara liða.

*Ian Rush hefur skorað flest mörk í þessum viðureignum, alls 25.

*Alls 78,299 sáu leik liðanna á Goodison Park í september 1948 og hafa aldrei fleiri áhorfendur orðið vitni að grannaslagnum.

*Liverpool leikur á gamla heimavelli Everton, Anfield Road. Í kjölfar deilna vegna leigu á vellinum ákvað hluti leikmanna Everton að fara á annan völl, en þeir sem urðu eftir stofnuðu Liverpool.

*Everton vann sinn fyrsta titil á Anfield Road árið 1891.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert