Chelsea bannar sellerí á Stamford Bridge

Sellerí er nú orðin bannvara á Stamford Bridge.
Sellerí er nú orðin bannvara á Stamford Bridge.

Englandsmeistarar Chelsea í knattspyrnu hafa bannað stuðningsmönnum sínum að mæta með grænmetið sellerí meðferðis á heimaleiki liðsins á Stamford Bridge. Talsverð brögð hafa verið að því að selleríi hafi verið kastað inná völlinn í leikjum Chelsea og nú hefur enska knattspyrnusambandið hafið rannsókn á slíku selleríkasti sem dómarar á Stamford Bridge hafa kvartað yfir að undanförnu.

Það hefur verið hefð á Stamford Bridge í tvo áratugi að stuðningsmenn komi með sellerí með sér á völlinn, vegna þess að einn af baráttusöngvum þeirra fjallar um þessa grænmetistegund.

Hann hljóðar svo:

Celery, Celery
If she don't come,
I'll tickle her bum
with a lump of celery

Stundum er svo sungið "Geremi" í staðinn fyrir "celery"!

Tveir dómarar hafa getið þess í skýrslum sínum eftir heimaleiki Chelsea að undanförnu að selleríi hafi verið kastað inná völlinn og leikmenn Arsenal kvörtuðu yfir því að hafa verið grýttir með grænmetinu þegar þeir tóku hornspyrnur í úrslitaleik deildabikarsins gegn Chelsea í Cardiff í síðasta mánuði.

„Það að kasta hlutum inná völlinn, þar með talið selleríi, er glæpur sem þið getið verið handtekin fyrir og lent á sakaskrá fyrir vikið. Framvegis geta allir sem mæta með sellerí meðferðis á leiki á Stamford Bridge búist við því að vera meinaður aðgangur og hver sá sem verður uppvís að því að kasta því fer í bann," sagði í yfirlýsingu á vef Chelsea. Þar voru stuðningsmenn ennfremur hvattir til að láta vita af þeim sem sæjust kasta grænmetinu á leikjum í sérstöku símanúmeri, og nafnleynd heitið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert