Ronaldo semur við Manchester United til fimm ára

Cristiano Ronaldo hefur fagnað mörgum mörkum í vetur.
Cristiano Ronaldo hefur fagnað mörgum mörkum í vetur. Reuters

Cristiano Ronaldo, hinn snjalli portúgalski knattspyrnumaður, hefur skrifað undir nýjan samning við Manchester United til næstu fimm ára. Þar með er endi bundinn á miklar vangaveltur fjölmiðla í Englandi, Spáni og Portúgal um að hann væri líklega á förum til Barcelona eða Real Madrid eftir þetta keppnistímabil.

„Ég er hæstánægður. Ég ræddi við Alex Ferguson um framtíð mína og það vita allir að ég vildi vera um kyrrt hjá félaginu. Ég er afar ánægður hjá United og vil vinna titla með því og vonandi tekst okkur það á þessu keppnistímabili," sagði Ronaldo í morgun en hann hefur leikið frábærlega með United í vetur og lið hans er í baráttu um sigur í ensku úrvalsdeildinni, Meistaradeild Evrópu og ensku bikarkeppninni.

Ronaldo er 22 ára gamall og hefur skorað 20 mörk í 43 leikjum með United á þessu keppnistímabili, þar af 16 mörk í 28 leikjum í úrvalsdeildinni, og þá hefur hann gert fimm mörk í sex landsleikjum Portúgala á tímabilinu. Hann er að ljúka sínu fjórða tímabili hjá Manchester United en Ronaldo kom til félagsins frá Sporting Lissabon í ágúst 2003, þá átján ára gamall.

Cristiano Ronaldo dos Santos Aveiro, eins og hann heitir fullu nafni, er frá portúgölsku eyjunni Madeira í Atlantshafi. Ronaldo-nafnið er komið frá Ronald Reagan, fyrrum forseta Bandaríkjanna, en hann var uppáhaldsleikari föður hans á sínum tíma. Ronaldo lék með Nacional á Madeira til 14 ára aldurs en þá fékk Sporting Lissabon hann í sínar raðir og Ronaldo flutti yfir á meginlandið.

Ronaldo hefur leikið með landsliði Portúgals frá 18 ára aldri og hefur skorað 17 mörk í 46 A-landsleikjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert